Verkefnið „Nýskapandi samfélag í Norðurþingi“ hlaut hæstu fjármögnun

sitelogo-erasmus

 

„Eflir staðarstolt og skapar skemmtileg tækifæri“

Þekkingarnet Þingeyinga hlaut nýverið hæsta styrk, sem úthlutað er úr Erasmus+ menntaáætlun ESB á Íslandi í flokknum „Samstarfsverkefni“ í ár. Verkefnið er jafnframt fyrsta íslenska verkefnið sem hlýtur styrk til þriggja ára. Alls bárust 27 umsóknir að þessu sinni og var sótt um tæplega 5,1 milljónir evra. Aðeins fjórtán verkefni voru samþykkt og nam heildar úthlutun til þeirra samtals um 2,2 milljónum evra á öllum skólastigum, allt frá leik- og grunnskóla til háskóla og fullorðinsfræðslu. Hæsta einstaka úthlutunin kom í hlut Þekkingarnets Þingeyinga í verkefnið „Nýskapandi samfélag í Norðurþingi“, alls 319.552 evrur, sem svarar til um 48 milljónir íslenskra króna. Umsókn ÞÞ var undir flokknum „Starfsmenntun“.

Hugmyndasmiður verkefnisins, Jóhanna Ingvarsdóttir,  sem sjálf er borin og barnfæddur Húsvíkingur, kom norður sumarið 2014 til að kynna hugmynd sína að verkefninu fyrir heimamönnum í Norðurþingi með það að markmiði að afla erlendra samstarfsaðila, skrifa umsókn og freista þess að fá styrk úr Erasmus+ menntaáætlun ESB fyrir samfélagið í Norðurþingi. Í kjölfar jákvæðra viðbragða heimaaðila við hugmyndinni, réði Þekkingarnet Þingeyinga Jóhönnu sem verktaka við að stýra umsóknarskrifum og hlaut til þess styrk úr Vaxtarsamningi Norðausturlands, VAXNA, að upphæð 1,5 milljón króna í umsóknarferlið. Jóhanna hóf verkið í september 2014 með því að fara utan til að afla samstarfsþjóða og fékk hún til liðs við sig öfluga samstarfsaðila í Wales, Ítalíu og Svíþjóð sem hafa í vetur tekið þátt í þróun og uppbyggingu verkefnisins  ásamt verkefnisstjórn heimamanna sem sett var á laggirnar  og skipuð var fulltrúum Þekkingarnets Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Norðurþings og Framhaldsskólans á Húsavík. Samhliða var myndaður „menntaklasi“ í Norðurþingi með leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, fullorðinsfræðslu og Háskólanum á Akureyri, Norðurþingi og Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga undir forystu Þekkingarnets Þingeyinga, sem verða mun leiðandi aðili í verkefninu, sem er til þriggja ára. Verkefnisstjóri verkefnisins verður Jóhanna Ingvarsdóttir.

Langhæsti styrkur ÞÞ til þessa

„Þetta er mjög svo gleðileg og spennandi niðurstaða. Styrkur VAXNA að upphæð 1,5 milljón króna hefur heldur betur ávaxtast vel þar sem Erasmus+ styrkurinn, sem kom í hlut Þekkingarnetsins, er upp á tæpar 320 þúsund evrur eða tæpar 48 milljónir króna, sem er langhæsti styrkurinn sem Þekkingarnetið hefur komið að til þessa,“ segir Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga.

Verkefnið „Nýskapandi samfélag í Norðurþingi“ miðar að því að efla nýsköpun í Norðurþingi með samvinnu skólasamfélags, stofnana og atvinnulífs. Myndað hefur verið samstarfsnet samstarfsþjóða og heimaaðila í Norðurþingi, sem verða mun tilraunasamfélag í verkefninu og „módel“ fyrir önnur evrópsk svæði, sem flokkast geta sem „jaðarbyggðir og  eiga undir högg að sækja hvað varðar íbúafjölgun og atvinnumöguleika. „Samstarfsaðilarnir munu vinna saman að námskrárgerð fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólastigið og fullorðinsfræðsluna þar sem áhersla verður á starfsmenntun, tæknismiðju, stafrænar framleiðsluaðferðir, nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og síðast en ekki síst vistvæn og sjálfbær samfélög. Markmiðið er að ala nemendur upp í því að sjá tækifærin í nærsamfélaginu og að þau læri að koma auga á þarfir, sem skila sér síðan í lausnum og afurðum heima fyrir og þannig læri þau að skapa sér lífsviðurværi heima fyrir sem aftur hefur þau áhrif að ýta undir sköpun og sjálfbærni samfélaga,“ segir Jóhanna, sem nú er að undirbúa fyrsta verkefnisfund verkefnisins í Norðurþingi í septembermánuði með erlendu samstarfsþjóðunum, en gert er ráð fyrir að verkefnið hefjst formlega þann 1. september 2015.

Matsferli Erasmus+ umsókna er mjög strangt og viðamikið og er mikið lagt upp úr yfirfæranleika og  dreifingu verkefnisins um Evrópu, þar sem ESB er fjármögnunaraðili þess. „Við erum því staðráðin í að vanda okkur afskaplega vel svo að Norðurþings-módelið verði eftirsótt hjá öðrum þjóðum eftir að þessu þriggja ára verkefnis-tímabili  lýkur,“ segir Jóhanna, en meðal verkþátta verkefnisins eru ferðir með kennara úr Norðurþingi í „þjálfunarbúðir“ til Wales, Ítalíu og Svíþjóðar auk þess sem námskeið fara einnig fram í heimahéraði. „Megin markmiðið er því annars vegar það að búa til módel fyrir nýskapandi samfélög og hinsvegar að koma á laggirnar gagnvirku þekkingarsetri með áherslu á nýsköpun, frumkvöðlafræði, starfsmenntun og þjálfun kennara og nemenda. Á gagnvirka þekkingarsetrinu munu kennarar, nemendur og smá og meðalstór fyrirtæki jafnframt geta byggt upp evrópskt tengslanet fyrir fjölbreytt verkefni og samstarf á sviði nýsköpunar og frumkvöðlafræði og jafnvel tengsl varðandi vöruþróun, sölu- og markaðsmál. Möguleikarnir eru óþrjótandi.“

Norðurþing tilraunasamfélag fyrir Evrópu

Sem tilraunasamfélag, verða námskrár og aðferðir smíðaðar og prufukeyrðar í Norðurþingi. Áhrifa verkefnisins munu því, ef að líkum lætur, gæta í öllum þeim menntastofnunum sem í sveitarfélaginu eru auk þess að teygja sig vonandi víðar um samfélagið, segir Jóhanna.

Þekkingarnet Þingeyinga kemur að verkefninu á forsendum framhaldsfræðslu og einnig út frá rannsóknasviði stofnunarinnar. Auk Þekkingarnetsins kemur Norðurþing að verkefninu fyrir hönd leik- og grunnskólastigins, Framhaldsskólinn á Húsavík og Háskólinn á Akureyri.  Erlendir samstarfsaðilar í verkefninu eru úr ýmsum ólíkum áttum og við fyrstu sýn eru tengingar þeirra við Norðurþing og verkefnið líklega ekki mjög augljósar.

University of Wales Trinity Saint David er mjög mikilvægur hlekkur í verkefninu, en UWTSD hyggst vinna sína verkþætti verkefninu í gegnum eigin stofnun, sem ber yfirskriftina „The International Centre for Creative Entrepreneurial Development (IICED) og er margverðlaunuð og leiðandi stofnun í Evrópu á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntamála. „Það er því mikill fengur að fá sérfræðinga UWTSD til liðs við okkur í Norðurþingi, en sérfræðingum þaðan kynntist ég á tengslaráðstefnu í Asturias á Norður-Spáni árið 2012,“ segir Jóhanna. Sérfræðingar UWTSD í verkefninu verða hjónin Andrew og Kathryn Penaluna og Caroline McManus Usei.

Ítalski samstarfsaðilinn er sjálfbær ólífubúgarður á Sikiley, Azienda Agricola „DORA“ sem byggður var upp af ungum frumkvöðli, Vincenzu Ferrara, á mjög skemmtilegan og vistvænan hátt með styrk frá ESB. Vincenza starfar jafnframt sem verkefnisstjóri í fjölmörgum verkefnum á vegum ESB  sem lúta m.a. að nýsköpun, ferðaþjónustu, matarmenningu og vistvænum landbúnaði svo fátt eitt sé nefnt. „Tengslum við Vinzencu náði ég í gegnum evrópska samstarfsnetið Enterprize Europe Network vorið 2014. Með okkur tókust góð kynnni og svo fór að ég heimsótti hana í september síðastliðnum. Gagngert til að kynna henni verkefnið okkar og þreifa á möguleikum til samstarfs, sem nú eru orðnir að veruleika.“

Vincenza hafði svo góð tengsl við Svíana, tvíburabræðurna Mats og Johan Lindberg, sem reka upplýsingatæknifyrirtækið Lindberg&Lindberg AB í Södertalje í Svíþjóð, en saman hafa ítalski og sænsku aðilarnir unnið að fjölmörgum Evrópuverkefnum saman með vistvænnar lausnir og áherslur að leiðarljósi í sínum verkefnum. Áherslur ítalska aðilans í verkefninu er á sjálfbærniþátt verkefnisins á meðan Svíarnir sjá um smíði og uppsetningu á gagnvirku þekkingarsetri með allri þeirri tækni sem til þarf.

„Við erum nokkuð viss um að þetta verkefni efli staðarstolt og skapi mikil og skemmtileg tækifæri fyrir þróun samstarfs á öllum skólastigum í heimahéraði á sviði nýsköpunar, frumkvöðlafræði, starfmenntunar og þjálfunar. Á sama tíma skapast tækifæri til að læra af ólíkum svæðum í löndum Evrópu en ekki síður til að fræða um það sem fram fer hjá okkur, en meginforsendur þess að hljóta styrki sem þessa eru að verkefni hafi yfirfærslugildi og að önnur samfélög geti lært af þeim,“ segir Óli að lokum.

 

Sjá: http://www.erasmusplus.is/um/frettir/nr/3311

 

Deila þessum póst