Þekkingarnetið sér út úr Kófinu!

Veiran og breytt viðvangsefni

Menntastofnanir, eins og Þekkingarnet Þingeyinga, hafa í gegnum tíðina byggt stærstan hluta sinnar starfsemi á því að vinna á einhvern máta með hópa, þ.e. fólk sem deilir tíma og rúmi og er að fást við eitthvað sameiginlegt námsefni. Þróun síðustu ára hefur þó fært sífellt stærri hluta náms út úr kennslustofunum. Kennslan hefur þannig færst inn í tæki og miðla nemendanna og um leið að nokkru leyti leyst upp hópana, í hinum hefðbundna skilningi þess orðs. Fullorðinsfræðslan vinnur hins vegar með fólki og fyrirtækjum eftir svolítið öðrum leiðum og með annarri umgjörð en almennt er í bóknámi framhaldsskóla eða háskóla. Að veita þjónustu í fullorðinsfræðslu til „hópa“ í samkomubanni getur því aldrei orðið annað en áskorun og útheimt ný úrræði og nýja hugsun. Vinnu við rannsókna- og þróunarverkefni er vissulega að ýmsu leyti hentugra að sinna í samkomubanninu. Hefur jafnvel kosti til skemmri tíma, t.d. að fólk sinni verkefnum sem útheimta einbeitingu og frið. Það koma nú samt þröskuldar af ýmsu tagi í ljós líka við þessa vinnu, svo sem í samstarfi milli stofnana innan héraðs, innan lands og jafnvel milli landa. Málþing og ráðstefnur fyrir tómum sölum og snertilaust samráð og fundahöld. Það sem mestu skiptir hér er kannski það að þrátt fyrir alla sína afgerandi ókosti hefur Cóvið kannski orðið til þess að fleyta mörgum menntastofnunum hratt áfram í þessari þróun. Hlutir sem íhaldsömustu stofnunum þóttu óhugsandi hafa allt í einu orðið gerlegir með nýjum leiðum.

Hvað hefur Þekkingarnetið gert?

Þekkingarnetið tók þann pól í hæðina við upphaf samkomubanns að forgangsraða starfskröftum og aðstöðu eins og kostur er til að bregðast hratt við hinum breyttu aðstæðum. Markmiðin voru að nýta bjargir Þekkingarnetsins með afgerandi hætti til samfélagslegrar eflingar, fræðslu og hvatningar á erfiðum tímum, íbúum og atvinnulífi svæðisins til góða. Áralöng reynsla af fjarfundum og dreifðri starfsemi hefur komið sér til góða, en það hefur þó þurft að fara langt út fyrir hefðbundnar leiðir. Það hefur margt verið sýslað á þessum nótum síðustu vikurnar og flest af því með öðrum hætti en vaninn er. Ef ótalin er regluleg þjónusta af ýmsu tagi er hér það helsta sem Þekkingarnetið fékkst við á meðan samkomubannið stóð yfir:

  • Vikulegir viðburðir allt samkomubannið með þjóðþekktum „föstudagsgestum“, þar sem um 500 áhorfendur fylgdust með í beinni útsendingu facebook-live og um 10 þúsund manns hafa séð alls (uppsafnað).
  • 7 vefnámskeiðum um fjarfund komið á með alls 104 skráðum þátttakendum. Dæmi um viðfangsefni: Fjölmenning, lífshamingja, markaðssetning, svefnvenjur, ræktun grænmetis, samskipti.
  • Málþing Þekkingarnetsins um svæðisbundnar rannsóknir haldið í beinu streymi (ZOOM-facebook live) þar sem um 50 þátttakendur tóku þátt í beinni útsendingu. Uppsafnað áhorf á viðburðinn er um 1.300 manns.
  • Um 20 háskólanemum útveguð sumarstörf við rannsóknaverkefni í Þingeyjarsýslum. Frumkvæði haft að myndun sumarstarfanna í samstarfi við sveitarfélög á starfssvæðinu.
  • 3 umsóknum skilað um allstór alþjóðleg Erasmus rannsókna-/þróunarverkefni í samstarfi við innlenda og erlenda aðila.
  • Ráðgjöf og aðstoð af ýmsu tagi um fjarfundatækni veitt gjaldfrjálst til sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana.
  • 30 rafræn námsráðgjafarviðtöl við einstaklinga.

 

Þekkingarnetið er einn af þessum margumræddu innviðum sem samfélagið á sjálft. Það þarf að nota þessa innviði, til þess eru þeir; aðstöðu, ráðgjöf, fræðslu, rannsóknir, nám. Á Húsavík, í Mývatnssveit, Þórshöfn og alls staðar þar á milli. Starfsfólk Þekkingarnetsins mun taka ykkur vel. Þau gera það alltaf.

 

Óli Halldórsson

Forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga.

Deila þessum póst