Á fimmtudaginn verður formleg opnun á Þekkingarsetrinu Mikley í Mývatnssveit. Opnunarhátíð hefst kl 16.30 þar sem boðið er uppá skemmtiatriði og léttar veitingar úr héraði, allir velkomnir. Þekkingarsetrið hefur aðsetur sitt við Hlíðarveg 6 í Reykjahlíðarþorpi, í björtu og opnu skrifstofurými. Það mun hýsa ólíka aðila, t.d. námsmenn, sjálfstætt starfandi einyrkja og stofnanir. Nú þegar eru þar starfandi Mývatnsstofa, Vatnajökulsþjóðgarður, námsver og starfsstöð Þekkingnets Þingeyinga og Geochemý. Mývatnsstofa er samstarfsverkefni ferðaþjónustunnar á svæðinu, Geochemý eru sjálfstætt starfandi jarðfræðingar. Þekkingarnet Þingeyinga opnaði nú á ágúst starfstöð í Mývatnssveit með starfsmanni sem sinnir námsveri og þjónustu við námsmenn, símenntunarnámskeiðum á svæðinu og verkefnum á rannsóknarsviði stofnunarinnar.
Markmiðið með stofnun þekkingarseturins er margþætt, slík setur hafa ólík en jákvæð samfélagsleg áhrif þar sem þeim hefur verið komið á fót. Þá er m.a. horft til þess að bæta möguleika fólks með háskólamenntun til búsetu í sveitinni, viðhalda þeim störfum í þekkingarstarfsemi sem eru hér nú þegar, hvetja til þverfaglegrar samvinnu, hvetja til náms og rannsóknavinnu og laða hingað störf í þekkingarstarfsemi.
Undirbúningur verkefnisins hófst með því að á árinu 2015 var skipaður starfshópur sem kannaði möguleika á uppbyggingu fræða- eða þekkingarseturs í Mývatnssveit. Þekkingarnet Þingeyinga sá um verkefnastjórn og Uppbyggingarsjóður Eyþings styrkti verkefnið. Hópurinn skilaði skýrslu í maí 2016 og þar kom fram sú niðurstöða að það væri bæði fýsilegt og gerlegt að reka þekkingarsetur í Mývatnssveit. Þá var ákveðið að hentugt húsnæði til að byrja með fyrir starfsemina væri í húsnæði Skútustaðahrepps sem er samliggjandi skrifstofu hreppsins í Reykjahlíðarþorpi en jafnframt yrði unnið áfram að framtíðarstaðsetningu setursins.
Mikley er stærsta eyjan í Mývatni en í mars 1858 var haldinn fundur í eyjunni þar sem ákveðið var að stofna lestrarfélag í sveitinni og stofna sparisjóð búlausra í sveitinni. Lestrarfélagið varð síðar að bókasafni Mývatnssveitar.
