Þingeyjarsýslur í tölum

Á dögunum gaf Þekkingarnetið út skýrslu með samantekt helstu hagtalna í Þingeyjarsýslum.  Áhugavert er að rýna þessar tölur enda gefa þær okkur stöðumynd af þróun ýmissa þátta í samfélaginu undanfarin 10-20 ár. Sem dæmi má nefna þróun atvinnuleysis á svæðinu og samanburð við tölur á landsvísu.  Frá árinu 2014 hefur þróun atvinnuleysis í Þingeyjarsýslum verið mun líkari þróuninni á landsvísu en árin þar á undan þegar sveiflurnar hér voru minni en á landsvísu. Aðrar tölur sem gefa okkur mynd af svæðinu eru þróun mannfjölda og þá sérstaklega fjölda grunnskólabarna í Þingeyjarsýslum. Á síðustu tveimur áratugum (2001-2020) hefur grunnskólabörnum fækkað um 41% á svæðinu þegar fækkun íbúa var einungis 9%. Skýrist það að einhverju leyti af hækkun meðalaldurs íbúa úr 35 árum í 41 ár á tímabilinu. Jafnvægi hefur hins vegar verið að nást bæði í fjölda íbúa og grunnskólabarna allra síðustu árin.

Ferðaþjónustunni var gefinn gaumur í skýrslunni og athyglisvert var að sjá áhrif heimsfaraldursins á þessa atvinnugrein. Gistinóttum erlendra gesta fækkaði í þessu ástandi á sama tíma og umtalsverð fjölgun var meðal Íslendinga. Hvalaskoðunin dregur ennþá vagninn í ferðaþjónustunni og hefur fjöldi farþega margfaldast frá upphafi. Ef horft er til hvalaskoðunar á landinu öllu undanfarin 10 ár hefur hlutdeild ferða á Skjálfanda þó lækkað nokkuð, eða úr 41% árið 2011 í 28% árið 2019. Skýrist það að ekki af fækkun farþega frá Húsavík heldur að einhverju leyti af auknu framboði annars staðar á landinu.

Framkvæmd skýrslunnar var í höndum Lilju Berglindar Rögnvaldsdóttur og Elíasar Árna Eyþórssonar sem var sumarnemi hjá Þekkingarnetinu.

Deila þessum póst