Þingeysk sveitarfélög efla verkefnissjóð

Nú hafa  sveitarfélögin á starfssvæði Þekkingarnetsins gert samninga við stofnunina um fjármögnun verkefnasjóðs sem hugsaður er fyrir atvinnuskapandi sumarverkefni háskólanema af svæðinu.  Til þessa hefur sveitarfélagið Norðurþing lagt 1 m.kr. í þennan sjóð árlega og hefur hann verið notaður til mótframlaga í styrkumsóknum og fjármögnun sumarrannsóknaverkefna háskólanema.  Frá árinu 2014 koma hin sveitarfélögin inn í verkefnasjóðinn og fjármagna hlutfallslega á móti Norðurþingi m.v. íbúafjölda. Heildarfjárhæð fer því nálægt 1,7 m.kr. árlega til þessara verkefna.

Sveitarfélögin standa ekki að almennum rekstri Þekkingarnetsins heldur er stofnunin fjármögnuð með öðrum hætti, þ.e. samningsbundnu framlagi úr ríkissjóði (um 40-50% veltu) og sjálfsafla-/verkefnafé (50-60%). Þessi myndarlega þátttaka sveitarfélaganna í atvinnuskapandi verkefnum fyrir þingeyskt háskólafolk í gegnum verkefnasjóðinn er hins vegar afar verðmæt og mun eiga þátt í að skapa nokkur mikilvæg sumarstörf.  Það er reynsla Þekkingarnetsins af sumarverkefnum undanfarinna ára að almennt auka þau líkur á að þingeysk ungmenni finni sér atvinnufarveg á sínu sviði í heimahéraði.  Þá hefur stöku verkefni reynst afar hagnýtt og leitt af sér beina atvinnusköpun eða nýþróun í atvinnulífi svæðisins.

Ef útgefið efni Þekkingarnetsins er skoðað má finna margar skýrslur eða lokaafurðir sumarverkefna háskólanema.

Deila þessum póst