Þekkingarnetið og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga vinna nú saman að verkefni sem ber heitið Tæknimennt sem byggðaaðgerð en það var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands og er nú einnig leitað að styrk hjá fyrirtækjum á svæðinu. Verkefnið hefur það markmið að ýta undir tæknimennt og stafræna færni í grunnskólum á svæðinu enda alveg óhætt að segja að aukin færni til framtíðar sé mikilvægt byggðamál. Nú hefur verið sett saman gríðarlega spennandi dótakassi, sem ber heitið Þingeyska snjallkistan. Þar kennir ýmissa grasa af kennslugögnum sem ætluð eru til að örva og kenna forritun, kóðun, rafmagnsfræði, rýmisgreind ofl. sem allt byggir undir færni barna, viðheldur eðlislægri forvitni þeirra og frumkvöðlahæfileikum. Einnig er þar að finna vinylskera og hitapressu, þar sem hægt er að búa til vegglímmiða, stensla, fatamerkingar o.fl. sem hugmyndaflugið leyfir. Snjallkistan stendur öllum grunnskólum á vinnusvæði ÞÞ til boða og verður kynnt skólunum sérstaklega á næstunni, en hún mun ganga á milli skólanna samkvæmt samkomulagi þeirra á milli. Verkefnið er hugsað til 2 ára og miðar að því að skólarnir fái að kynnast þessum kennslugögnum, með von um að það örvi áhuga og eigin tækjakaup.
Eins og áður segir styrkti Uppbyggingarsjóður Norðurlands verkefnið gegn því að fjár yrði aflað á móti til að kosta kaup á búnaði í kistuna. Í ágúst munum við því leita til fyrirtækja um þátttöku í verkefninu og vonum að því verði vel tekið. Þeir sem vilja stökkva á vagninn strax mega endilega hafa samband við okkar fólk, Helenu helena (hjá)hac.is eða Guðrúnu gudrun (hja) hac.is til að ganga frá styrkveitingu.