Föstudaginn 30. apríl útskrifaði Þekkingarnet Þingeyinga 12 nemendur úr Félagsliðabrú við hátíðlega athöfn á Fosshótel Húsavík. Athöfnin var aðeins minni í sniðum en upphaflega var áætlað til að tryggja að farið yrði eftir fjöldatakmörkunum. Hver nemandi mátti því aðeins bjóða einum aðila með sér. Úr varð mjög skemmtileg og þægileg stund þar sem nemendur, fjölskyldumeðlimir, starfsfólk Þekkingarnetsins og nokkrir af kennurum komu saman og fögnuðu þessum flotta áfanga.
Félagsliðabrúar námið er sniðið að þörfum fólks sem starfar við umönnun aldraðra, sjúkra, fatlaðra og/eða við heimaþjónustu. Það er einingabært og kennt samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Námið skiptist niður á fjórar annir og stendur því yfir í tvö ár.
Starfsfólk Þekkingarnets Þingeyinga óskar þessum frábæru einstaklingum innilega til hamingju og þakkar kærlega fyrir samfylgdina s.l. tvö ár.
