Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi er áþekkt verkefni og Sjálfbærniverkefni Austurlands og sækir fyrirmynd í það um margt. Verkefnið er vöktunarverkefni þar sem fylgst er með þróun efnahags, samfélags og umhverfis á svæðinu frá Vaðlaheiði í vestri til og með Tjörneshreppi í austri. Að verkefninu standa Landsvirkjun, Landsnet, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit, Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri og samtök og markaðsstofur ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og skipa fulltrúar framangreindra aðila stýrihóp verkefnisins. Þekkingarnet Þingeyinga fer með verkefnisstjórn.
Síðla árs 2014 hófst endurvakning verkefnisins, sem rekur sögu sína aftur til ársins 2008, en verkefnið hafði þá legið í dvala um nokkurt skeið. Mikil þróunarvinna hefur farið fram frá árinu 2014 til dagsins í dag. Fyrstu skrefin fólust meðal annars í því að yfirfara þá vísa sem komin voru drög að eftir umfangsmikið samráð við íbúa og hagsmunaaðila sem fór fram á árunum 2008 og 2009. Því næst var aftur farið af stað í samráðsferli við íbúa og hagsmunaaðila og lögð áhersla á að ná til ungmenna á svæðinu. Nú er svo komið að mótaðir hafa verið 20 vísar sem mældir eru með 37 mælikvörðum. Þá hefur vöktunarsvæði hefur verið skilgreint og gagnasöfnun og úrvinnsla er hafin. Með haustinu er áformað að opna vef verkefnisins og byrja að birta gögn sem sýna þróun efnahags, samfélags og umhverfis á framangreindu svæði frá árinu 2011. Þegar fram líða stundir mun gagnasafn verkefnisins sem birt verður á vef þess verða afar verðmætt meðal annars fyrir sveitarfélög, atvinnulíf, skóla og rannsakendur þar sem gögnin eru bundin við afmarkað svæði sem oftar en ekki fellur saman við önnur og stærri í opinberri birtingu upplýsinga.
Eins og áður sagði er gagnasöfnun og úrvinnsla hafin. Meðal þeirra þátta sem verkefnið mun fylgjast með eru íbúaþróun, kosningaþátttaka, loftgæði, fasteignamarkaður, eignir og skuldir íbúa, fyrirtækja og sveitarfélaga á svæðinu og samgöngur. Undir samgöngur falla meðal annars komur frakt- og skemmtilferðaskipa til Húsavíkur og flugsamgöngur. Hér má sjá hluta þeirra gagna sem birt verða á vef verkefnisins síðar á árinu, en það eru fjöldi farþega- og flutningaskipa sem höfðu viðkomu í Húsavíkurhöfn á árunum 2011-2016 og þróun flugs og flugs frá árinu 2007-2016.
Komum farþega- og flutningaskipa hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum.
Flugfélagið Ernir hóf flug til Húsavíkur í apríl 2012. Flugfarþegum hefur fjölgað jafnt og þétt frá þeim tíma en þó mest á milli áranna 2015 og 2016.
Hér má sjá þróun í fjölda flugfarþega á Akureyri og Húsavík. Á meðan farþegum á Akureyri fækkaði á árunum 2011-2015 fjölgaði þeim á Húsavík. Farþegum til Akureyrar tók að fjölga á ný árið 2016.