Fiskvinnslufólk í námi

Í dag lýkur 6 daga fiskvinnslunámskeiði sem 19áhugasamir starfsmenn Ísfélagsins á Þórshöfn sitja. Námskeiðið er 48 klst námsleið frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og  að henni lokinni fá þátttakendur titilinn Sérhæfður fiskvinnslumaður sem telur til launahækkunar. Farið er yfir fjölbreytt efni á námskeiðinu, eðlilega margt sem lýtur beint að fiskvinnslunni, en einnig má nefna fjölmenningu, sjálfstyrkingu, skyndihjálp og líkamsbeitingu. Í fyrsta skipti var námskeiðið fjarkennt að mestu leyti frá Fisktækniskóla Íslands í Grindavík.  Hópnum var kennt í tveimur aðskildum rýmum, annar hópurinn fékk kennslu á pólsku og hinn á ensku. Einn námsþáttur var kenndur á sameiginlega á staðnum með aðstoð tveggja túlka en það var Skyndihjálpin sem heimamaðurinn Tóti, stundum kallaður Þórarinn J Þórisson, kenndi af sinni alkunnu snilld. Vegna Covid19 fengu nemendur ekki beina verklega kennslu, en Tóti sýndi réttu handbrögðin. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar kenndi síðasta námsþáttinn sem fjallaði um launamál, réttindi starfsmanna og allt sem lýtur að kjaramálum. Við óskum Sérhæfðum fiskvinnslumönnum til hamingju með áfangann. 

 

Skyndihjálp var kennd í Þórsveri með aðstoð tveggja túlka.

 

Í Hafliðabúð var kennt á ensku.
Pólski hópurinn var í Menntasetrinu.

 

 

Deila þessum póst