Fólksfækkun í Þingeyjarsýslum

Í dag kom út árleg skýrsla Þekkingarnetsins um fólksfjöldaþróun í Þingeyjarsýslum og við Bakkaflóa. Viðvarandi fækkun er í öllum sveitarfélögum síðustu 10 ár nema í Langanesbyggð þar sem ekki hefur orðið marktæk fækkun íbúa. Skýrsluna má finna hér: https://www.hac.is/rannsoknir/utgefid-efni/ 

Helstu niðurstöður eru þessar:

Starfssvæðið í heild

Í Þingeyjarsýslum er íbúaþróun í heildina neikvæð síðustu ár en við Bakkaflóa bregður við nýjum tón þar sem íbúum hefur fjölgað milli ára um 7,7% í þorpinu og ef horft er til síðustu fjögurra ára þá hefur íbúum fjölgað um 16.6% á Bakkafirði. Þarna eru þó tiltölulega fáir einstaklingar á bak við hvert prósent en árið 2011 voru þar 72 íbúar en er núna 84 talsins. Þegar horft er á byggðakjarnana síðastliðin fjögur ár hefur mesta fækkuninn orðið á Raufarhöfn en þar hefur fækkað um 28 íbúa síðan árið 2011 sem gera 14,4%.

Á landinu öllu hefur íbúum fjölgað um 1,18% á milli áranna 2013 og 2014 en í Þingeyjarsýslum og Bakkafirði hefur þeim fækkað um 1,36%. Ef miðað er við íbúaþróun frá árinu 2004 þá hefur íbúum í Þingeyjarsýslum og Bakkafirði fækkað um 9,8% á meðan mannfjöldi á landinu öllu hefur aukist um 12%. Í öllum sveitarfélögum svæðisins er viðvarandi fækkun síðustu ár nema Langanesbyggð, þar sem breyting er einungis 0,3% síðan árið 2004 og því ekki marktækar tölur um fækkun.

Þegar horft er á aldursdreifingu íbúa innan sveitafélaganna má sjá svolítið mittismjóa dreifingu, þ.e. það vantar inní yngstu árgangana og einnig árganga á milli 20-40 ára. Þetta er eitt af einkennum fólksfækkunar, að það vantar barnafjölskyldur. Þessi dreifing er þó örlítið jafnari í Langanesbyggð þar sem mikill fjöldi ungabarna er og ekki áberandi vöntun inní árgangana á milli 20-40 ára.

Deila þessum póst