Frábært að fá að vinna við það sem tengist námi mínu

Þann 21. júní úskrifaðist ég, Berglind Jóna Þorláksdóttir, frá Háskóla Íslands með BA próf í félagsfræði eftir þriggja ára nám við skólann. Þegar ég fór að hugsa um sumarvinnu í byrjun þessa árs vildi ég reyna finna eitthvað tengt mínu námi og Þekkingarnet Þingeyinga var einn af þeim vinnustöðum sem komu fyrst upp í hugann.  Svo fór að ég sótti um sumarstarf þar og í maí fékk ég að vita að styrkur fékkst fyrir rannsóknarverkefni sem ég vinn að í sumar.

Rannsóknarverkefnið heitir Þjónustusókn og samfélagsábyrgð á Norðausturlandi. Það fjallar um að greina hvar íbúar á Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði sækja þjónustu svo sem verslun og heilbrigðisþjónustu og hversu mikil áhrif verðlag og vegalengdir hafa á þessa þætti. Auk þess er eitt af markmiðum rannsóknarinnar að taka stöðu á samfélagsgerðinni og hvernig íbúar bregðast við ýmsum samfélagsþáttum í hinu daglega lífi á borð við skólamál og húsnæðismál. Unnin var spurningarlisti í samræmi við þá þætti sem skoðaðir eru og núna í lok júní var sá spurningarlisti sendur út frá okkur inn á öll heimili á ofangreindum stöðum. Alls voru 1285 heimili á Norðausturlandi sem fengu könnunina senda til sín. Það er mikilvægt fyrir öll samfélög að átta sig á stöðu sinni og sjá hvað er gott en einnig hvað má fara betur. Því er mikilvægt að sem flestir sjái sér fært um að svara spurningalistanum til þess að hægt sé að fá marktækar niðurstöður.

Samhliða rannsókninni á þjónustusókn vinnum við á Þekkingarnetinu rannsókn á helstu hindrunum íbúa dreifðra byggða og smærri samfélaga í að sækja nám í þeim tilgangi að finna leiðir til að yfirstíga þær hindranir.

Það eru forrréttindi að fá vinnu strax eftir grunnnám tengd sínu námi og fá að kynnast  í sumar þeirri fræðavinnu sem á sér stað á Þekkingarneti Þingeyinga.

Deila þessum póst