Frábært uppistand hjá Héðni

IMG_7626

Héðinn Unnsteinsson mætti til Húsavíkur í gær og flutti uppistand sitt; Hvernig líður þér? Lífsorðin 14. Það var fullt út úr dyrum í Nausti, eða um 100 manns. Það er algjörlega óhætt að segja að Héðinn hafi farið á kostum. Í raun var þetta ótrúleg upplifun að sitja og hlusta á Héðin fara yfir þessi 14 lífsorð og  reynslusögurnar af veikindum sínum sem hann deildi með gestum. Salurinn lá í hláturskrampa í rúman klukkutíma. Frásagnarhæfileiki Héðins er magnaður og hélt hann athygli áhorfenda allan tímann. Hann talar óhemju hratt, en hvert orð kemst samt til skila. Má kannski segja að hann hafi flutt u.þ.b. þriggja klukkutíma efni á rúmri klukkustund.

Um leið og hann kom áhorfendum til að hlægja fékk hann salinn líka til að velta áleitnum spurningum fyrir sér, t.d. hver er munurinn á „venjulegum“ einstaklingi og „geðveikum“ einstaklingi? Hvað er „venjulegur“ einstaklingur? Hver ákveður það? Erum við ekki öll geðveik?

Við á Þekkingarneti Þingeyinga höfum aðeins eitt ráð fyrir þig, lesandi góður. Ef þú sérð þetta uppistand Héðins auglýst, skráðu þig þá strax. Þetta er eitthvað sem enginn má missa af, sérstaklega ekki frásögninni af heimsókn Héðins á kínversku nuddstofuna, þar munaði litlu að fólk kafnaði úr hlátri.

IMG_7591

Takk fyrir okkur, Héðinn.

Deila þessum póst