Fullt af námskeiðum í nóvember

Nóvember námsvísir Þekkingarnets Þingeyinga er farinn í prentun og mun því skríða inn um bréfalúgur íbúa á starfssvæði okkar seinnipartinn í þessari viku. Eins og áður er mjög fjölbreytt úrval námskeiða í boði. Það er okkar von að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Á Húsavík verður boðið upp á:

  • Bakstursnámskeið þar sem Lauren Colatrella mun kenna þátttakendum grundvallartækni til þess að baka mjúkar, fágaðar og bragðgóðar kökur og formkökur. Einnig munu þátttakendur læra að nota rjómasprautu og önnur áhöld ætluð til kökuskreytinga, hvernig á að vinna með súkkulaði glassúr, litun á smjörkremi og margt fleira.
  •  Hrólfur Jón Flosason, matreiðslumaður á Fosshótel Húsavík mun svo halda námskeið í eldun á saltfiski. Þar fer hann yfir fjórar mismunandi eldunaraðferðir á þessu frábæra hráefni.
  •  Við bjóum upp á enskunámskeið fyrir byrjendur þar sem markmiðið verður að þátttakendur öðlist hagnýta þekkingu á málfræði og orðaforð.
  • Húðumhirða og notkun eigin snyrtivara. Ásta Hermannsdóttir, snyrti- og förðunarmeistari og Jóna Björg Arnarsdóttir munu kenna á þessu námskeiði. Þetta hentar öllum sem vilja læra að nota betur sínar eigin húð- og snyrtivörur og fá ráðleggingar um hvernig vörur henti best og hvernig megi nýta sínar vörur sem mest. Fjallað verður um húðumhirðu, gerðar húðgreiningar og farið yfir hvaða vörur henta hverri húðgerð.
  • Viskí námskeið! Snorri Guðvarðarson kemur í heimsókn til okkar frá Akureyri og leiðir þátttakendur í allan sannleikann um þennan magnaða drykk. Þetta námskeið hefur slegið í gegn á Akureyri og nú er komið að okkur að njóta. Þetta námskeið verður líka í boði á Þórshöfn.

Fleiri námskeið verða í boði víðar á starfssvæði okkar:

  • Þórshöfn:
  • Viskí námskeið með Snorra Guðvarðarsyni.
  • Sundnámskeið fyrir krakka fædda 2010 og 2011. Skemmtilegt námskeið með fjölbreyttum æfingum og leikjum sem miða að því að gera börnin örugg í vatninu auk þess að vera mjög góður undirbúningur fyrir skólasundið.
  • GPS námskeið. Almennt GPS námskeið þar sem fjallað verður um GPS tækið, helstu virkni og meðferð ferla, punkta og leiða. Tilvalið fyrir þá sem nota GPS til leiðsögu á göngu, í bíla eða á sleða.
  • Tvöfalt prjón. Sólveig Mikaelsdóttir mun heimsækja bæði Þórshöfn og Bakkafjörð með þetta magnaða námskeið. Tvöfalt prjón byggir á því að prjóna stykki með tvær sléttprjónaðar munsturhliðar samtímis, engin ranga myndast og flíkina má nota báðum megin. Tvöfalt prjón er hægt að nota til að prjóna nánast hvaða flík sem er, t.d. peysur, sokka, vettlinga, húfur og teppi.

Á Raufarhöfn mun Silja Jóhannesdóttir halda námskeið sem kallast „Í hverju ertu best/ur?“ Þátttakendur munu taka Gallup Strength finder matið og svo verður farið yfir styrkleika hvers og eins. Á námskeiðinu verður farið betur í hvað þeir þýða og hvernig þeir geta nýst einstaklingnum í leik og starfi. Einnig verður farið í hvernig hægt er að þróa þessa styrkleika áfram.

Á Kópaskeri mun Jóhanna Svava Sigurðardóttir, Zumbakennari halda heldur betur hressilegt Zumbanámskeið. Ef þú hefur gaman af dansi í takt við góða tónlist og vilt jafnvel svitna aðeins á meðan þá gæti Zumba verið fyrir þig. Zumba er í grunninn einföld spor í takt við Suður-Ameríska tóna þar sem líkamsrækt er fléttað saman við en auk þess er Zumba gleði, brennsla og frábær skemmtun.

Á Laugum munum við svo bjóða aftur upp á hið geysi vinsæla Keramiknámskeið. Síðast komust færri að en vildu og því hefur verið ákveðið að bjóða upp á námskeiðið aftur í nóvember. Á námskeiðinu verða kenndar grunnaðferðir í mótun leirs og farið í gegnum ferlið frá mótun til brennslu og glerjunar viðfangsefnisins. Unnið verður með steinleir og þátttakendur vinna frjálst að nytjahlutum eða skúlptúrum sem þeir fylgja svo úr hlaði og fá með heim í lok námskeið. Leiðbeinandi er Aníta Karin Guttesen, leirlistarkona.

Eins og sjá má er nóg um að vera í nóvember. Hægt er að skrá sig með því að hringja í síma 464-5100 eða á skráningarkerfinu á heimasíðunni.

Með því að smella hér má skoða nóvember námsvísi Þekkingarnetsins.

Deila þessum póst