Fullt af námsleiðum í boði á haustönn

IMG_6507Nú fer að styttast í að námsleiðir haustannar 2015 fari af stað. Margar spennandi námsleiðir munu fara af stað núna í september. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og hægt verður að taka nokkrar námsleiðir í fjarnámi. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir námsleiðaframboð Þekkingarnets Þingeying á haustönn (með því að smella á heiti námsleiðanna opnast námsskrá viðkomandi námsleiðar).

 

  • Skrifstofuskólinn: Kennt um allt starfssvæðið í fjarnámi. Þetta er okkar vinsælasta námsleið undanfarin ár og nú verður hún í fyrsta skipti kennd eingöngu í fjarnámi. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur þurfi að mæta í tíma í kennslustofu heldur nálgast nemandinn námsefnið frá kennurum alfarið í gegnum netið. Helstu námsþættir eru sjálfsstyrking og samskipti, námstækni, tölvu- og upplýsingaleikni, verslunarreikningur og bókhald, þjónusta og enska. Námsleiðin er 240 kennslustundir.
  • Menntastoðir: Þekkingarnet Þingeyinga í samvinnu við Austurbrú munu bjóða upp á námsleiðina Menntastoðir á skólaárinu 2015-2016. Opið fyrir alla íbúa á starfssvæðum Þekkingarnetsins og Austurbrúar. Námið hefst með staðlotu laugardaginn 12. september og stendur yfir í 30 vikur. Þessi námsleið er tilvalin fyrir þá sem eru að hefja nám eftir hlé, hafa ekki lokið framhaldsskóla og vilja bæta færni sína. Markmið námsins er að stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til áframhaldandi náms. Námsgreinar eru íslenska, stærðfræði, enska, danska, námstækni, upplýsingatækni og sjálfsstyrking. Kennsluhættir miðast við þarfir fullorðinna nemenda og er leitast við að veita nemendum góða og persónulega þjónustu. Boðið verður upp á námið í fjarnámi með stuttum staðlotum. Leitast verður við að nota einfaldar lausnir varðandi tæknimál sem gera að verkum að þú getir stundað námið hvar og hvenær sem er. Námsleiðin veitir nemendum aðgang að háskólabrú / háskólagátt. Námsleiðin er 660 kennslustundir.
  • Fagnámskeið fyrir starfsmenn í heilbrigðis- og félagsþjónustu: Þessi námsleið verður kennd á Þórshöfn. Fagnámskeið fyrir starfsmenn í heilbrigðis- og félagsþjónustu er 198 kennslustundir af 230 kennslustunda námi sem þarf til að geta stundað nám á brú fyrir félagsliðanám. Fagnámskeið fyrir starfsmenn í heilbrigðis- og félagsþjónustu skiptist í grunnnámskeið, sérnámskeið og valnámskeið, 66 kennslustundir hvert um sig. Námið er ætlað þeim sem aðstoða, annast um eða hlynna að sjúkum, fötluðum og öldruðum á einkaheimilum eða stofnunum. Einnig þeim sem á einkaheimilum eða stofnunum aðstoða skjólstæðinga sína við innkaup, þrif og persónulega umhirðu auk þess að veita skjólstæðingum sínum félagslegan stuðning og aðstoð til að rjúfa félagslega einangrun.
  • Landnemaskóli: Kennsla fer fram á Kópaskeri. Í Landnemaskólanum er megináhersla lögð á nám í íslensku en einnig á að auka þekkingu námsmanna á íslensku samfélagi og atvinnulífi. Leiðbeinendur leitast við að nýta þekkingu, færni og menningu hvers einstaklings. Fréttir, dægurmál og atvik úr lífi og starfi námsmanna eiga að njóta forgangs fram yfir hefðbundið námsefni. Námið fer fram að miklu leyti með umræðum og verkefnavinnu þar sem námsmenn afla sér upplýsinga á netinu, í fjölmiðlum og hjá stofnunum. Námsleiðin er 120 kennslustundir.

Skráning er hafin á allar námsleiðirnar. Hægt er að fá frekari upplýsingar og skrá sig í síma 464-5100 og með því að senda tölvupóst á hac@hac.is

Deila þessum póst