Þessa dagana er prófavertíðin í hámarki. Nemendur hreiðra hér um sig í húsinu á öllum tímum sólarhrings og mikið stress og lífsgleði einkennir þá alla. Nú í morgun tóku 9 nemendur próf. Einn af þeim var Guðmundur Friðbjarnarson, nemandi í Kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri. Guðmundur er tengdasonur góðvinar okkar Ágústs Óskarssonar og það er greinilegt að Gústi hefur skólað drenginn vel til.
Guðmundur var ekki lengi að ljúka prófinu, enda mætti hann full lesinn til leiks. Kærasta hans Guðrún Helga var einnig í prófi og herramaðurinn Guðmundur vildi að sjálfsögðu ekki yfirgefa húsið án hennar. Þannig að hann ákvað að rölta hérna upp til okkar og spyrja hvort hann mætti ekki gera við vaskinn inni á baði hjá okkur. Við rákum öll upp stór augu og héldum að núna væri Guðmundur búinn að lesa yfir sig, enda vissum við ekki að það væri eitthvað að vaskinum. En okkar maður Guðmundur beið ekki eftir svari heldur náði sér í skiptilykil og hófst handa. Vandamálið var sumsé að þegar skrúfað var frá heita vatninu kom kalt og öfugt. Þetta hafði komist upp í vana hjá starfsfólkinu og allir hættir að kippa sér upp við þetta. En loksins kom karlmaður með verkvit í húsið og kippti þessu í lag.
Við þökkum Guðmundi kærlega fyrir og vonum að honum, líkt og öllum hinum, gangi sem allra best í þeim prófum sem eftir eru.