Haustið nálgast…

Birna, Guðmundur og Kiddý keppast þessa dagana við að ljúka sumarverkefnunum sínum en þau hafa staðið vaktina á meðan við hin erum búin að vera í sumarleyfi.

Birna hefur unnið að gagnaöflun vegna verkefnis um breytta atvinnuhætti á Húsavík. Sú gagnaöflun gengur vel og er margt forvitnilegt að koma í ljós um þróun atvinnuhátta á Húsavík. Gréta Bergrún og Óli munu taka við boltanum af Birnu síðar í mánuðinum og ljúka verkefninu um næstu áramót.

Kiddý hefur staðið í ströngu við að leggja ferðavenjukönnun fyrir ferðamenn á Húsavík og í Mývatnssveit. Gagnaöflun í Mývatnssveit er lokið og um það bil hálfnuð á Húsavík. Guðmundur hefur verið Kiddý til aðstoðar seinnipartinn í júlí og mun aðstoða hana við að klára gagnaöflunina á Húsavík í vikunni. Auk þess hefur Kiddý unnið að mastersverkefni sínu sem snýst um viðhorf foreldra barna í 8. bekk til skóla án aðgreiningar.

Guðmundur hefur að mestu lokið viðtölum við Völsunga. Viðmælendur hans voru 22 talsins og var áhersla lögð á að ná til iðkenda, þjálfara og annarra sem starfað hafa í þágu félagsins frá árinu 1960 til dagsins í dag. Viðtölin eru liður í gagnaöflun vegna ritunar sögu Völsungs en félagið verður 90 ára árið 2017 og svo styttist í 100 ára afmælið. Hluti af verkefni Guðmundar mun verða birtur á næstu vikum.

Á meðan þau Birna, Guðmundur og Kiddý ljúka sínum verkefnum kemur fasta starfsfólkið hvert af öðru aftur til starfa og fer að sinna árvissum haustverkum.  Helena Eydís og Óli komu til vinnu í síðustu viku en í þessari viku eru Heiðrún, Erla Dögg og Hilmar væntanleg. Þá fer allt á fullt á símenntunarsviði í að ljúka undirbúningi haustsins sem var kominn vel á veg þegar sumarleyfi hófust.

Framundan er skemmtilegt haust þar sem eitt og annað er í boði sem ekki hefur verið í boði áður. Þar ber helst að nefna Menntastoðir og Skrifstofuskóla en hvort tveggja er áfromað að bjóða upp á með fjarnámssniði svo þátttakendur eru ekki bundnir við að vera staðsettir á ákveðnum stað á ákveðnum tíma heldur geta tekið þátt á sínum forsendum þó innan ákveðinna mark. Menntastoðir eru samstarfsverkefni Þekkingarnetsins og Austurbrúar. Þar munu þátttakendur geta stundað nám í grunnfögum framhaldsskólanna íslensku, ensku og stærðfræði auk þess sem danska og tölvur eru hluti námsins. Námið tekur allan veturinn. Það hefst í september og er skráning hafin á hac@hac.is og í síma 464-5100. Skrifstofuskólinn verður einnig í boði í fjarnámi og er það í fyrsta skipti sem það er í boði með þessa vinsælu námsleið. Skrifstofuskólinn er góður undirbúningur fyrir hverskyns ritara og skrifstofustörf allt frá símasvörun upp að vinna hluta bókhalds. Skráning í Skrifstofuskólann er einnig hafin á hac@hac.is og í síma 464-5100. Hilmar, Erla og Heiðrún veita nánari upplýsingar um Menntastoðir og Skrifstofuskóla.

Deila þessum póst