Heimsókn CRISTAL hópsins til Svíþjóðar

Dagana 5.-12. febrúar síðastliðinn dvaldi hópur sem vinnur að CRISTAL verkefninu saman í Svíþjóð. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér hvernig kenna má STEM greinar eða vísindi, tækni, verkfræði og stærfræði með áherslu á verklega þáttinn ásamt því að taka þátt í þróun sýndarkennslustofu sem kennarar munu geta notað við kennslu eigin námshópa og til að tengjast námshópum annars staðar.

Þátttakendur í ferðinni úr Norðurþingi sem er tilraunasamfélag CRISTAL verkefnisins voru Unnur Ösp Guðmundsdóttir, leikskólakennari, Anna Björg Leifsdóttir, grunnskólakennari, Karin Gerhartl, grunnskólakennari, Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, grunnskólakennari og Helena Eydís Ingólfsdóttir, verkefnastjóri.

Hópurinn dvaldi í Västerås sem liggur um 100 km norðvestur af Stokkhólmi. Fyrsta daginn fór hópurinn til Arboga sem er lítill 6.000 manna bær í Västmannaland. Þar eru sænskir samstarfsaðilar í CRISTAL verkefninu með vinnuaðstöðu sína og var tíminn nýttur í að prófa sýndarkennslustofu sem þeir eru að vinna að. Sýndarkennslustofan verður spennandi vettvangur náms og kennslu þegar hún verður tilbúin og fengu kennararnir þarna tækifæri til að hafa áhrif á þróun hennar. Ætlunin er að ljúka þróunarvinnu fyrir 1. apríl svo kennarar og nemendur í Norðurþingi muni mögulega geta prófað að nota kennslustofuna á vordögum.

20180206_113551683_iOS

 

 

 

 

 

 

 

 

Arboga

20180206_140711537_iOS

 

 

 

 

 

 

 

CRISTAL hópurinn á góðum vinnudegi í Arboga

 

Á öðrum degi var ABB industrigymasium heimsóttur. ABB industrigymnasium er framhaldsskóli þar sem áhersla er lögð á tækninám og frumkvöðlamennt. Skólinn vinnur þétt með nærsamfélaginu og leysa nemendur oft úr ýmsum vandamálum sem fyrirtæki á svæðinu standa frammi fyrir. Vandamálin geta verið stór og smá en eiga það í flestum tilfellum sameiginlegt að snúast um tæknilegar lausnir. Bóndi nokkur í nágrenni Västerås var t.d. orðinn þreyttur á að þurfa sjálfur að opna fyrir hænunum sínum til að hleypa þeim út. Hann leitaði til skólans og nemendur þróuðu lausn sem byggði á því að þegar hitastig var orðið nógu gott fyrir hænurnar opnaðist hurðin og þær komust út.

20180207_094128227_iOS

 

 

 

 

 

 

 

 

Vinnuaðstaða nemenda í ABB industrigymnasium.

 

20180207_134156400_iOS

 

 

 

 

 

 

 

 

Líkan af sólarljósi og bíl sem gengur fyrir sólarrafhlöðum.

Að lokinni heimsókn í ABB industrigymnasium fór hópurinn í Expectrum sem er staðsett í miðborg Västerås. Expectrum hefur m.a. þann tilgang að stuðla að auknum áhuga á tækni á svæðinu og að styrkja sjálfsmynd Västerås og nágrennis sem miðstöð tækni- og nýsköpunar. Í Expectrum mætast undir einu þaki í á „fundarstað tækifæranna“ skólabörn, frumkvöðlar og atvinnulíf. Fyrirtæki geta leigt skrifstofuaðstöðu í Expectrum og haft aðganga að ýmiskonar fundaherbergum og -sölum auk þess sem boðið er upp á vinnustofur með aðstöðu til sköpunar og þróunar hugmynda. Starfsfólk Expectrum tekur á móti skólahópum og starfsmannahópum á daginn þar sem fólk kemur saman til að vinna að hinum ýmsu verkefnum t.d. teikna upp hugmyndir og prenta í þrívídd, skoða lífveru í víðsjá, gera tilraunir á sviði eðlis- og efnafræði, forrita róbóta eða smíða hluti úr tæknilego. Seinnipartinn og um helgar eru vinnustofurnar opnar fyrir almenning.

Í Eskilstuna er fyrsta verslunarmiðstöð í heimi þar sem eingöngu eru seldar endurnýttar og endurunnar vörur. Verslunarmiðstöðin er einnig merkileg fyrir þær sakir að þar er hægt að stunda eins árs nám í endurhönnun. CRISTAL hópurinn heimsótti að sjálfsögðu þessa verslunarmiðstöð, fékk kynningu á viðskiptamódeli verslunarmiðstöðvarinnar og verslananna innan hennar og á náminu. Íbúar í Eskilstuna skila hlutum sem eru heilir í móttöku- og flokkunarstöð sem staðsett er við verslunarmiðstöðina. Á hverjum degi eru þeir hlutir flokkaðir t.d. í húsgögn, leikföng og barnavörur, búsáhöld, raftæki og bækur. Verslunarfólk í ReTuna verslunarmiðstöðinni skoðar það sem kemur inn og velur hvað það vill selja í verslun sinni og kemur því fyrir í versluninni eða á lager hennar. Verslanir greiða leigu fyrir verslunarrými en allar vörur fá þær án kostnaðar í flokkunarstöðinni. Sumir verslunareigendur taka hluti og vinna úr þeim nýja hluti eða endurbæta þá með einhverjum hætti en aðrir selja vörurnar óbreyttar. Í verslunarmiðstöðinni er einnig rekin námsleið í samstarfi við Eskilstuna Fölkhögskola. Nemendur sem stunda nám í verslunarmiðstöðinni læra að endurhanna nytjahluti og búa til nýja hluti úr þeim eins og að gera straubolta að lampa eða nota fatnað til að búa til nýja flík.

20180208_100159497_iOS

 

 

 

 

 

 

 

 

Bekkur í ReTuna.

Tom Tit var sögupersóna í bók Arthur Good, La Science Amusante. Árið 1985 var sett upp sýning sem byggði á vísindatilraunum Tom Tits. Sýningin naut það mikilla vinsælda að ákveðið var að gera hana varanlega í þeim tilgangi að vekja áhuga á náttúrvísindum og tækni. CRISTAL hópurinn heimsótti Tom Tits Experiment sem er safn á 4 hæðum. Á safninu er aragrúi vísindatilrauna og tækja sem gestir safnsins geta gleymt sér við að prófa og skoða. Í tengslum við safnið er rekinn lítill leikskóli og heimsækja leikskólabörnin þar safnið reglulega, auk þess tekur safnið á móti leik- og grunnskólabörnum úr Södertalje og nágrenni oft í viku þar sem þau fá að prófa tiltekin tæki og tilraunir eftir því hvað þau eru að fást við hverju sinni í skólanum.

20180209_092545661_iOS

 

 

 

 

 

 

 

 

Hitamyndavél í Tom Tits

20180209_124849551_iOS

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrautaborð í Tom Tits

Síðasta vinnudegi ferðarinnar varði hópurinn í Arboga. Þar vann hópurinn að því að búa til námsefni fyrir leik- og grunnskóla þar sem tækni er notuð við að kenna stærðfræði og náttúrufræði ásamt því að koma aftur að þróun sýndarkennslustofunnar.

Ferðin var í alla staði afar gagnleg fyrir hópinn og verkefnið í heild en ekki hvað síst fyrir skólasamfélagið í Norðurþingi. Með verkefninu hafa kennarar öðlast þjálfun og aukna færni í að nýta sér tækni í kennslu með nýjum hætti ásamt því eins og að vera farnir að hugsa verkefni nemenda á nýjan hátt og leyfa þeim að spreyta sig meira sjálfir á að prófa nýja hluti án þess að hafa fyrirframgefna forskrift að því hvað á að gera eða hver útkoman á að vera.

Deila þessum póst