Í tilefni af HM var settur upp tippleikur hér á Þekkingarsetrinu. Öllum starfsmönnum Þekkingarnetsins, Náttúrustofunnar, Háskólans og Heilbrigðiseftirlitsins var boðið að taka þátt. Áhuginn á fótbolta er eins og gerist og gengur mismikill. Líffræðingarnir okkar eru almennt ákaflega litlir áhugamenn um fótbolta og því kom ekki á óvart að einungis tveir „nördar“, eins og þeir eru kallaðir hér innanhúss, tóku þátt. Allir borguðu þátttökugjald og spennan var í raun óbærileg á meðan riðlakeppnin stóð yfir. Vegna sumarleyfa var ákveðið að láta keppnina enda með síðasta leik riðlakeppninnar.
Hart var barist, minna unnið og miklar bollaleggingar fyrir hvern leik. Aldursforseti keppninnar, Þorkell Björnsson (Oggi), mætti gríðarlega vel stemmdur til leiks og ljóst að fólk þurfti að vera á tánum til að eiga roð í hann. Óli Halldórsson, ákvað að nota þekkta taktík „2-0 til vinstri“ sem lýsir sér þannig að hann spáði öllum liðunum vinstra megin á blaðinu 2-0 sigri. Þetta skilaði honum neðsta sætinu í keppninni. Til lukku með það Óli. Til gamans má geta þess að sá starfsmaður sem sennilega eyðir langflestum klukkustundum á árs grundvelli í að horfa á fótbolta í sjónvarpinu, Hilmar Valur, beið afhroð í keppninni og var í næst neðsta sæti.

Að lokum fór það svo að Oggi og Kiddý Hörn voru efst og jöfn eftir síðasta leik. Því þurfti að grípa til bráðabana. Oggi ákvað, af góðmennskunni einni, að bjóða Kiddý upp á að skipta pottinum jafnt og sættast á að deila sigrinum. Kiddý tók það ekki í mál þar sem hún var búin að ákveða að nota verðlaunaféð til að kaupa sér sokkabuxur til að hlaupa í. Þetta var afleikur hjá ungliðanum. Því Oggi móðgaðist við þessi viðbrögð stúlkunnar og jarðaði hana í bráðabananum.
Við óskum Ogga til hamingju með sigurinn og minnum hann á góð tilboð á göróttum drykkjum á nærliggjandi veitingastað milli 16:00-18:00 alla virka daga.