Hreiðar Másson valinn fyrirmynd í fullorðinsfræðslu

IMG_5488Í dag veitti Þekkingarnet Þingeyinga Hreiðari Mássyni viðurkenninguna „Fyrirmynd í fullorðinsfræðslu“. Hreiðar hefur síðastliðin 3 ár verið afar duglegur að nýta sér þjónustu Þekkingarnetsins og verið öðrum sönn fyrirmynd og er því vel að þessum titli kominn.

Eftir að Hreiðar lauk 10. bekk árið 1993 lá leið hans á sjóinn og var hann ýmist á sjó eða við vinnu  í fiskvinnslu á landi allt til ársins 2010. Sjómennsku hans lauk skyndilega 24. janúar 2010 þegar hann slasaðist við störf sín. Síðan þá hefur Hreiðar verið bundinn við hjólastól.

Fyrstu samskipti Hreiðars og náms- og starfsráðgjafa Þekkingarnetsins voru í nóvember 2010 þegar honum er vísað til okkar af ráðgjafa Virk starfsendurhæfingar. Eftir nokkur viðtöl ákvað Hreiðar að hefja nám í FA-námsleiðinni Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum, og lauk fyrri áföngum námsleiðarinnar vorið 2011 en varð að hætta í náminu þar sem bakslag kom í endurhæfingu hans og þurfti hann að leggjast inn á sjúkrahús í 8 vikur. Haustið 2012 hittir Hreiðar aftur ráðgjafa Þekkingarnetsins og upp úr því ákveður hann að skrá sig aftur í námsleiðina Nám og þjálfun, þó svo að hann hafi verið búinn með fyrri hluta námsleiðarinnar vildi hann taka flest alla áfangana aftur sem og seinni hluta námsleiðarinnar, sem hann og gerði og útskrifaðist með glæsibrag vorið 2013.

Þegar hér var komið við sögu hafði áhugi Hreiðars á að sækja sér meiri menntun kviknað og eftir frekari ráðgjafarviðtöl við ráðgjafa Þekkingarnetsins ákvað hann að skrá sig á félagsfræðibraut Framhaldsskólans á Húsavík þar sem hann hóf nám í ágúst 2013 og er fyrsti nemandi skólans frá upphafi sem er bundinn við hjólastól. Markmið Hreiðars eru að ljúka stúdentsprófi á næstu 4-5 árum og skrá sig svo í Háskólanám.

Stærsti kostur Hreiðars að okkar mati er það jákvæða viðhorf til lífsins sem hann hefur tileinkað sér. Hann sér engin vandamál, heldur verkefni sem hann þarf að leysa. Hann segist koma sjálfum sér sífellt á óvart þegar kemur að náminu, honum gengur vel að læra og áhuginn eykst með degi hverjum.

Starfsfólk Þekkingarnets Þingeyinga er stolt af vinnunni með Hreiðari Mássyni og stefnir að því að fylgja honum eftir eins og þörf krefur í framtíðinni. Námsferill Hreiðars á síðustu misserum og skref hans til endurhæfingar inn á atvinnumarkað, dregur fram með afgerandi hætti mikilvægi þeirra tækja og úrræða sem framhaldsfræðslukerfið hefur yfir að ráða.

 Við óskum Hreiðari innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Deila þessum póst