Í andlitinu speglast sagan

1497926_10152189659597490_948544159_o
Haustannir rannsóknasviðs Þekkingarnetsins eru með svipuðum hætti hvert ár. Unnið er að frágangi sumarverkefna og skilum á þeim á viðeigandi staði og umsóknum í hina ýmsu sjóði fyrir verkefni næstu missera.
Eins og áður kom fram í frétt hér á síðunni vorum við að ljúka skýrslu um sjálfbæra landnýtingu og landbætur sem var sumarverkefni. Unnið er að lokaskýrslu um þjónustusókn íbúa á Húsavík og austan Jökulsár að Bakkafirði og í síðustu viku lauk verkefninu Í andlitinu speglast sagan.
Verkefnið var unnið af Halldóru Kristínu Bjarnadóttur og fékkst styrkur úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna það.

Verkefnið fólst í söfnun bernskuminninga valins hóps fólks af Norðausturlandi. Bernskuminningar viðmælenda voru fangaðar með tvennum hætti annars vegar ljósmynd í svarthvítu og hins vegar viðtali. Valdir voru 15 viðmælendur, flestir rosknir, með ólíkan bakgrunn, aðstæður og sögu. Með ítarlegu viðtali og ljósmyndun af hverjum viðmælenda tókst Halldóru að fanga „kjarnann“. Afraksturinn á þessu stigi máls er skýrsla með bernskuminningum 15 Þingeyinga og kennir þar ýmissa grasa, allt frá minningum um uppáhaldsleikföng, fyrsta ferðalagið úr heimabyggðinni, óveður, hermenn eða sjóferðir.

Á næstu mánuðum verða verkefninu gerð frekari skil með sýningu á myndunum og bernskuminningunum.

Deila þessum póst