Íslenskukennsla fyrir útlendinga

Í gær útskrifuðust 16 nemendur úr Íslensku 1B hér á Húsavík. 15 nemendur koma frá Póllandi og 1 frá Bretlandi. Að megninu til eru þetta sömu nemendur og kláruðu Íslensku 1A fyrir áramót og eftir rétt rúmlega viku pásu ætla að minnsta kosti 14 nemendur að byrja á Íslensku 2A.

IMG_5965Það er langt síðan við höfum haft jafn fjölmenna og áhugasama hópa í íslenskukennslu. Að okkar mati er ein ástæðan fyrir þessu góða gengi í íslenskukennslunni sú að við sömdum við Dariu Machnikowska um túlkun á námskeiðunum. Daria er búin að standa sig mjög vel og kunnum við henni bestu þakkir fyrir. Ekki má heldur gleyma kennurunum okkar en þær stöllur Halla Rún Tryggvadóttir og Heiða Guðmundsdóttir hafa náð einstaklega vel til hópsins og skilað frábæru verki. Heiða og Daria munu halda áfram með hópnum í næsta námskeiði.

Í Mývatnssveit erum við með 11 nemendur í Íslensku 1A og þar er kennari Halldóra Jónsdóttir. Hópurinn er mjög blandaður þar, þ.e.a.s. nemendur frá mörgum löndum og því var ekki raunhæft að ráða túlk þar. En það hefur alls ekki komið að sök því Halldóra hefur náð mjög góðu sambandi við nemendur og allt gengið eins og í sögu.  Því námskeiði lýkur á fimmtudaginn í næstu viku og stefnum við að því að fara af stað með Íslensku 1B strax að því loknu.IMG_5966

Það er gaman þegar vel gengur og vonandi munu næstu námskeið ganga jafn vel og þau sem við höfum boðið upp á hingað til. Ennþá eru nokkur laus sæti í Íslensku 2A á Húsavík sem hefst þriðjudaginn 25. mars og einnig eru laus sæti í Íslensku 1B í Mývatnssveit, sem við stefnum á að byrja öðruhvoru megin við næstu mánaðarmót. Allar frekari upplýsingar fást í síma 464-5100.

Deila þessum póst