Jólagleði í Breiðumýri með Jaan Alavere

IMG_2386
Jaan Alavere við flygilinn.
Mynd – Unnsteinn Ingason

Þekkinganet Þingeyinga hefur staðið fyrir mjög fjölbreytilegum námskeiðum og fræðslu í Þingeyjarsýslum, einnig jólasmiðjum og fyrirlestrum. Í gærkvöldi miðvikudaginn 3. desember stóð Þekkinganetið fyrir Jólagleði í Breiðumýri. Þar var hinn kunni tónlistarmaður frá Eistlandi Jaan Alavere, fenginn til að segja sögur og spila jólalög.

Jaan byrjaði á sögum frá gamla tímanum í Eistlandi, sem er ekkert svo voðalega gamall. Hann sagði frá fyrstu jólunum sínum þegar hann var 7 ára,  þegar hann sem unglingur fór á orgeltónleika í kirkjunni, til að hlusta á tónlistina hljóma í svona stóru húsi, en hann fékk tiltal fyrir þetta uppátæki. Hann sagði frá kuldanum sem var í kirkjunum sem náði alveg niður í mínus 5°c, jólahaldi sem var bannað, þegar hann var í rússneska hernum og margt fleira fróðlegt, en um leið ótrúlegt. Þá lék hann jólalög frá ýmsum löndum á flygilinn.

Allt var þetta afar skemmtilegt og tókst Jaan mjög vel upp. Kertaljós voru á borðum, boðið uppá kaffi, safa og kökur og stemningin notaleg,  gestir nutu þess að hlýða á Jaan bæði sögur hans og frábært spil, var honum klappað lof í lófa í dagskrárlok.

IMG_2382
Notaleg stund á aðventunni.
Mynd- Unnsteinn Ingason.

Deila þessum póst