Sá siður hefur haldist um árabil að karlmennirnir á Þekkingarsetrinu á Húsavík sjá um jólaskreytingar á kaffistofu vinnustaðarins. Fær þá jafnan sköpunargleðin að njóta sín til fulls og áður óþekktir hæfileikar líta dagsljósið. Í ár var þemað metnaðarfullt, þ.e. að smíða allnákvæma piparköku-afsteypu af hinu glæsilega húsi sem Þekkingarsetrið starfar í á Hafnarstéttinni. Húsið stendur á kaffiborði Þekkingarsetursins næstu vikurnar gestum og starfsfólki til yndisauka.