Lítið er um hefðbundið námskeiðahald í desembermánuði hjá okkur þar sem flestir eru uppteknir við jólaundirbúning. Við reynum samt sem áður að halda í hefðina og bjóða upp á jólasmiðjur á léttum nótum þar sem einstaklingar geta komið og notið aðventunnar saman.
Við byrjuðum með jólasmiðju á Þórshöfn þar sem Rannveig Benediktsdóttir kenndi heimamönnum að hekla snjókorn. Halla Rún Tryggvadóttir fór og kenndi Raufarhafnarbúum að búa til sinn bragðgóða brjóstsykur við góðar undirtektir heimamanna. Á Húsavík var haldið jólakvöld með versluninni Snældunni þar sem þátttakendur nutu leiðsagnar Sólveigar Mikaelsdóttur við að hekla utan um seríur og prjóna jólakúlur.
Mývetningar og Kópaskersbúar fengu svo Emilíu Aðalsteinsdóttur í heimsókn, en þar var ýmislegt á boðstólnum, meðal annars hvernig leggja má fallega á borð og búa til ódýrar en fallegar jólaskreytingar. Í Kiðagili lærðu Bárdælingar að spila gömul spil og sauma jóladúka. Og síðast en ekki síst lærðu íbúar í Þingeyjarsveit að smíða jólatré á gamla mátann með þeim Aðalsteini Péturssyni og Baldri Daníelssyni. Þátttaka á jólasmiðjunum hefur verið reglulega góð, eins og undanfarin ár. Mikið er lagt uppúr afslappaðri og jólalegri stemmingu og greinilegt að það hefur hitt í mark. Enda nauðsynlegt að kúpla sig út úr blessuðu „jólastressinu“ og eiga notalega stund í góðum félagsskap.
Á facebook-myndasíðu Þekkingarnetsins má sjá nokkrar myndir úr jólasmiðjunum.