
Námskeiðið Sóknarbraut er að fara af stað á Þórshöfn en það er haldið af Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga. Sóknarbraut er hagnýtt námskeið þar sem þátttakendur kynnast grundvallaratriðum um stofnun fyrirtækja og öðlast þekkingu á ýmsum þáttum fyrirtækjarekstrar, s.s. leiðinni frá hugmynd til framkvæmda, áætlanagerð, markaðsmálum og fjármálum. Á námskeiðinu, sem er 40 klst. (11 skipti), vinna þátttakendur með eigin viðskiptahugmyndir eða fyrirtæki. Skráning á námskeiðið er hafin og kennsla hefst 23. febrúar. Aðallega er kennt á mánudögum frá kl 16-20, einnig verður kennt á þriðjudögum tvær fyrstu vikurnar. Þau Anna Guðný Guðmundsdóttir og Sigurður Steingrímsson frá Nýsköpunarmiðstöð voru með fjörugan og skemmtilegan kynningarfund um námskeiðið í Menntasetrinu síðastliðinn mánudag og væntanlega verður námskeiðið sjálft enn skemmtilegra. Þórshafnarbúar og nágrannar eru hvattir til að láta þetta hagnýta námskeið ekki fram hjá sér fara.
