Linda Birgisdóttir valin fyrirmynd í framhaldsfræðslu

IMG_7354Í dag tilnefndi Þekkingarnet Þingeyinga Lindu Birgisdóttur „fyrirmynd í fullorðinsfræðslu“ á sínu starfssvæði fyrir árið 2014. Linda hefur síðastliðin ár verið afar dugleg við að nýta sér þá þjónustu sem Þekkingarnetið hefur upp á að bjóða.Eftir grunnskóla fór Linda í Framhaldsskólann á Húsavík á félagsfræðibraut þar sem hún lauk hluta af stúdentsprófi. Haustið 2010 lá svo leið hennar í Keili, í ÍAK- einkaþjálfaranám sem hún lauk vorið 2011.

Fyrstu samskipti Lindu og náms- og starfsráðgjafa Þekkingarnetsins voru í tengslum við námið í Keili árið 2010. Linda tók próf á Þekkingarnetinu og nýtti sér aðstöðu og ráðgjöf ef á þurfti á meðan á náminu stóð.

IMG_7341

Haustið 2013 hóf Linda nám í Skrifstofuskólanum hjá Þekkingarnetinu. Hún hafði frétt af náminu hjá vinkonu sinni og leist mjög vel á það. Linda hafði samband við ráðgjafa á Þekkingarnetinu og áður en hún vissi af var hún sest á skólabekk. „Þetta var mjög skemmtilegur tími, það situr mikið eftir og þetta nýtist mér alveg gríðarlega vel“ sagði Linda þegar hún var spurð út í námið og hvernig það hefði nýst henni. Það er óhætt að segja að Linda hafi þróast og eflst í starfi en áður en hún lauk Skrifstofuskólanum starfaði hún sem bílstjóri hjá Íslandspósti en í dag hefur hún tekið við sem stöðvarstjóri Íslandspósts á Húsavík og nágrenni. Hún hefur mannaforráð og sér um rekstur stöðvarinnar. Linda segir skrifstofuskólann eiga stóran þátt í að hún fékk starfið en námið hefur eflt bæði faglega þekkingu hennar og persónulega færni.

 

Starfsfólk Þekkingarnets Þingeyinga er stolt af því að tilnefna Lindu Birgisdóttur sem fyrirmynd í framhaldsfræðslu og óskar henni velfarnaðar í framtíðinni.

 

 

 

Deila þessum póst