Mannfjöldaþróun í Þingeyjarsýslum 2010-2019

Upplýsingar um þróun mannfjölda í Þingeyjarsýslum á árunum 2010-2019 voru birtar í dag í nýrri skýrslu Þekkingarnets Þingeyinga.

Helstu niðurstöður fyrir svæðið í heild eru að frá því á árinu 2010 til ársins 2019 hefur íbúum fjölgað úr 4.930 í 5.088. Flestir voru íbúar árið 2018 en þá voru þeir 5320 talsins. Íbúum tók að fjölga árið 2016 í tengslum við uppbyggingu Þeistareykjarvirkjunar og kísilmálmverksmiðju PPC BakkiSilicon.
Þá er áhugavert að sjá að konum er að byrja að fjölga á svæðinu á ný eftir umtalsverða fækkun frá árinu 2010-2016. Aldurssamsetning íbúa á svæðinu er sömuleiðis að breytast á þann veg að íbúum á aldrinum 20-40 ára er að fjölga á meðan aðrir aldurshópar eru nokkuð áþekkir því sem þeir voru árið 2015. Þó má sjá mesta fækkun í 15-19 ára aldurshópnum og nokkra fjölgun fjölgun meðal karlmanna á aldrinum 60-64 ára. Meðalaldur íbúa hefur verið á bilnu 42-43 ár síðustu ár en var 41 ár í upphafi árs 2019. Karlar eru 53,2% íbúa en konur 46,7%.
Í þessari skýrslu var þróun í 0-18 ára aldurshópnum skoðuð sérstaklega. Þar kemur í ljós að hlutfall barna af heildar fjölda íbúa fer lækkandi. Sem dæmi má nefna að í Langanesbyggð voru um 30% íbúa á aldrinum 0-18 ára árið 2010 en eru um 22% árið 2019. Í Norðurþingi var hlutfall barna um 26% árið 2010 en er um 20% árið 2019. Börnum hefur í raun farið fækkandi í öllum aldurshópum á því tímabili sem var skoðað en frá árinu 2017 hefur börnum á leikskólaaldri tekið að fjölga og á milli áranna 2018 og 2019 voru jafnmörg börn á grunnskólaaldri.

Í skýrlsunni Mannfjöldaþróun í Þingeyjarsýslum 2010-2019 er að finna frekari upplýsingar um mannfjöldaþróunina m.a. er hún skoðuð eftir sveitarfélögum, póstnúmerum, þéttbýli og dreifbýli.

Deila þessum póst