Mannfjöldaþróun í Þingeyjarsýslum 2012-2021

Árlega gefur Þekkingarnet Þingeyinga út upplýsingar um þróun mannfjölda í Þingeyjarsýslum. Að þessu sinni nær skýrslan til áranna 2012-2021. Árið 2020 var um margt sérstakt þar sem heimsfaraldur vegna COVID-19 skall á heimsbyggðinni. Það hefur haft margvíslegar afleiðingar meðal annars á atvinnulíf og þar með búsetu. Íbúar og fyrirtæki í Þingeyjarsýslu eru engin undantekninga þar á, t.a.m. dró saman í ferðaþjónustu á síðasta ári og gripið var til framleiðslustöðvunar og uppsagna samhliða því hjá PCC BakkiSilicon. Hvort tveggja setur mark á íbúatölur á starfssvæði Þekkingarnets Þingeyinga við upphaf árs 2021. Áhugavert hefði verið að skoða búferlaflutninga og þróun þeirra í skýrslunni en það bíður betri tíma þar sem þau gögn liggja ekki fyrir enn sem komið er.

Mannfjöldi 1. janúar 2021
Þær upplýsingar sem liggja fyrir í skýrslunni byggja á gögnum um íbúafjölda frá Hagstofu Íslands og miða við mannfjölda eins og hann var 1. janúar 2021. Auk þess sem samantektin tekur yfir síðastliðin 10 ár þá voru teknar sérstaklega fyrir upplýsingar um þróun íbúafjölda úr hópi íbúa á aldrinum 60 ára og eldri. Skoðaður var fjöldi, kynjaskiptin og hlutfall af mannfjölda í hverju sveitarfélagi fyrir sig og á svæðinu í heild.

Þróun á starfssvæði Þekkingarnetsins
Íbúum á starfssvæði Þekkingarnetsins fækkaði á milli ára úr 5113 í 5007 eða um 2,07%. Karlar eru 2660 og konur 2347 eða 53% karlar og 47% konur. Þegar aldurs- og kynjasamsetning er skoðuð og árin 2017 og 2021 borin saman kemur í ljós að íbúum á svæðinu fjölgar í hópi 25-34 ára, körlum á aldrinum 0-4 ára, 10-14 ára og í flestum hópum eldri en 60 ára fjölgar sömuleiðis. Konum á aldrinum 5-9 ára, 35-39 ára, 40-44 ára og í flestum hópum frá 55 ára aldri fjölgar einnig. Aðrir hópar standa í stað eða fækkar á þessu fimm ára tímabili. Athyglisvert er að horfa til aldurshópsins 40-59 ára í hópi karla en hann var mun fjölmennari árið 2017 en 2021. Skýrist það að mestu af framkvæmdum við Þeistareykjavirkjun og iðnaðaruppbyggingu á Bakka.

Aldur, þéttbýli og dreifbýli
Meðalaldur íbúa á svæðinu fór lækkandi frá árinu 2017 til ársins 2020 en hækkaði á mili ára og er hærri þann 1. janúar sl. en hann hefur áður verið á því tímabili sem er til skoðunar í skýrslunni. Meðalaldurinn er 41,1 ár eða 2,7 árum yfir landsmeðaltali. Íbúum í byggðakjörnum á svæðinu fjölgaði nema á Húsavík, Laugum og í Reykjahlíð þar sem þeim fækkaði. Íbúum í dreifbýli fækkaði um þrjá á meðan íbúum í þéttbýli fækkaði um 85 manns.

Íbúar 60 ára og eldri
Við skoðun á aldurshópnum 60-109 ára koma fram áhugaverðar upplýsingar. Í flestum sveitarfélögunum á svæðinu sveiflast hlutfall íbúa á þessum aldri frá um það bil 15% upp í 30% á tímabilinu. Í Tjörneshreppi er hlutfall íbúa á aldrinum 60 ára og eldri frá um 45% og upp fyrir 50%. Íbúum á aldrinum 60-69 ára hefur fjölgað mest á tímabilinu en fjölgun hefur átt sér stað í öllum hópum 60 ára og eldri nema 80-89 ára hópnum en þar hefur orðið fækkun um 26 manns á tímabilinu. Framan af voru kynjahlutföllin því se næst jöfn eða allt til ársins 2015. Eftir það hefur körlum fjölgað umfram konur og eru nú 88 fleiri en konurnar. Hlutfall karla er um 54% en kvenna um 46%.

Nánar má lesa um mannfjölda í Þingeyjarsýslu hér.

Deila þessum póst