Þekkingarnet Þingeyinga hefur fengið aðild að Erasmus+ aðild í Nám og þjálfun sem lögaðilar og stofnanir sem sinna fullorðinsfræðslu geta sótt um. Um er að ræða styrki til starfsþjálfunar með námsheimsóknum, á vinnustaði, í starfsspeglun (job-shadowing) eða til að taka þátt í náms- og þjálfunarferðum. Erasmus+ er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta- æskulýðs- og íþróttamál.
Erasmus+ veitir fullorðinsfræðslustofnunum tækifæri til að sækja um styrki til að senda starfsfólk til samstarfsaðila í fullorðinsfræðslu í einu af þátttökulöndum áætlunarinnar. Þar geta þau sinnt kennslu, fengið starfsþjálfun eða sótt meiri þekkingu á sviði fullorðinsfræðslu, s.s. með þátttöku í fagtengdum námskeiðum eða með starfskynningu og starfsspeglun hjá fullorðinsfræðsluaðilum.
Nýverið fóru Lilja, Ingibjörg og Arnþrúður á 5 daga námskeið til Kýpur um teymisvinnu og teymisstjórnun. Námskeiðið var á vegum Shipcon, Hub of Research and Educational Training sem sérhæfir sig í námskeiðum fyrir Erasmus+. Á námskeiðinu var farið yfir alla helstu þætti árangursríkrar teymisvinnu en það er afar gagnlegt fyrir stofnunina þar sem starfsemi ÞÞ byggist að stærstu leyti á teymisvinnu sviðanna. Fyrirhugaðar eru kynningar fyrir aðra starfsmenn þar sem efni námskeiðisins verður miðlað áfram með það að markmiði að bæta innanhússferla og efla teymisvinnu Þekkingarnetsins.
Hilmar Valur sótti námskeið í Prag, ICT in Education, eða notkun upplýsingatækni í kennslu sem er sérsniðið fyrir kennara og starfsmenn menntastofnana. Námskeiðið var haldið af International Training Center. Á námskeiðinu voru margvíslega tækninýjungar í námi kynntar fyrir þátttakendum og raunverkefni búin til og prófuð á hópnum. Það voru þó nokkur atriði á námskeiðinu sem munu nýtast Þekkingarnetinu við skipulag og framkvæmd námskeiða og námsleiða FA, sérstaklega í dreifðari byggðum starfssvæðisins.