Námskeið á færibandi…

námskeið erla bj

Góður svefn er grunnstoð heilsu, það voru skilaboðin sem Dr. Erla Björnsdóttir sálfræðingur kom á framfæri á ansi mögnuðum fyrirlestri sem haldinn var í sal Framsýnar 13. nóvember síðastliðinn. Erla fjallaði um hversu mikilvægur góður svefn er fyrir eðlilegan þroska barna og unglinga og ekki síst fyrir betri lífsgæði fullorðinna einstaklinga. Þess má geta að Erla gaf nýverið út bókina Svefn og einnig heldur hún úti heimasíðunni betrisvefn.is, en þar má finna ýmsan fróðleik og upplýsingar sem geta gagnast, við hvetjum ykkur til að skoða hana. Mikil ánægja var með fyrirlestur Erlu sem innihélt bæði heilmikinn fróðleik og góð ráð til foreldra.

Námskeiðið Trú á eigin getu var haldið í gær og var aðsókn mjög góð. Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur kom því vel til skila hversu mögnuð við getum verið með því einfaldlega að hafa trú á okkur sjálf, við skiptum öll máli, er það ekki? Sjálfstraust er undirstaða margra færniþátta, svo sem hvernig okkur vegnar í samskiptum við aðra, tökum ákvarðanir og hvernig við vinnum undir álagi. Mikil gleði ríkti á námskeiðinu og fóru þátttakendur heim fullir af eldmóð. Framsýn, Starfsmannfélag Húsavíkur og Þingiðn í samstarfi við Þekkingarnetið buðu félagsmönnum sínum upp á þessi tvö námskeið. Við færum þeim  góðar þakkir fyrir, almenn ánægja var með þetta frábæra tækifæri hjá þátttakendum. Allar líkur eru á að þessu samstarfi verið haldið áfram og félagsmenn í framangreindum stéttarfélögum muni á komandi misserum fá fleiri tækifæri til að sækja námskeið sem þessi.

Framundan eru þónokkur spennandi námskeið. Hrafnhildur Jóna mun kenna þátttakendum að gera ítölsku mjúkostana Ricotta og Mozzarella ásamt fjölnota vaxklútum sem hægt er að geyma ostana í eða önnur matvæli í stað þess að nota plastfilmu. Námskeiðið er í boði á Þórshöfn 21. nóv, Kópasker 22. nóv og á Húsavík 23. nóv. Jólastjörnur er námskeið með Lindu Björk Óladóttur sem verður haldið 26. nóv. Á því námskeiði verður þátttakendum kennt að gera jólastjörnur úr taui. Hundanámskeið á Þórshöfn með Heiðrúnu Villa verður 23. nóv og 3. des í reiðhöll Snæfaxa á Gunnarsstöðum. Síðast en ekki síst er límmiðanámskeið með Grétu Bergrúnu á Raufarhöfn 5. des og Þórshöfn 6.des. Nánari upplýsingar má finna um öll þessi námskeið í Námsvísi Þekkingarnetsins sem á að vera kominn í öll hús á starfssvæði Þekkingarnetsins eða frá Vaðlaheiði til Bakkafjarðar. Skráning er í fullum gangi, hringdu í síma 464-5100 eða skráðu þig á hac@hac.is. Við hvetjum þig til að taka þátt J

Deila þessum póst