Námskeið og námsleiðir á vorönn

20160126_145703~2Síðustu vikurnar hafa verið fjörlegar í námskeiðahaldi hjá okkur hér á Þekkingarnetinu. Skrifstofuskólinn hefur verið í gangi hjá okkur síðan sl. haust og útskrifast nemendur úr honum fyrir páska. Fagnám í félags- og heilbrigðisþjónustu hefur einnig verið kennt frá því í haust og lýkur námsleiðinni fljótlega eftir páska eða þegar nemendur hafa lokið verklegri lotu. Góð aðsókn hefur verið í enskunám, en núna í vikunni lýkur framhaldssnámskeið í ensku og er aldrei að vita nema að haldið verði áfram eftir páska. Fjölmennt námskeið í Zumba var að ljúka í Lundi en þar hefur fólk á öllum aldri dansað saman síðustu 6 vikurnar undir diggri stjórn Jóhönnu Svövu zumbakennara, Á Laugum var Trausti Ólafsson með velheppnað myndlistarnámskeið í febrúar þar sem unnið var með akrýlliti.

Fjölmenn og skemmtileg námskeið hafa verið haldin fyrir starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík. Anna Lóa Ólafsdóttir og Edda Björgvinsdóttir komu með námskeiðið  „Húmor og hamingja“ en á þau námskeið mættu tæplega 50 manns og skemmtu sér konunglega. Mikið var hlegið og er óhætt að segja að þátttakendur hafi farið út stútfullir af gleði og hamingju. Á síðustu dögum hafa svo verið haldin skyndihjálpnámskeið. Á námskeiðunum sem eru þrjú talsins var margt um manninn, en rúmlega 40 manns sóttu upprifjunarnámskeið og 11 manns sóttu fullt tveggja daga námskeið. Sjúkraflutningamaðurinn Björgvin Árnason var leiðbeinandi á öllum skyndihjálparnámskeiðunum.

Þessa dagana er unnið að nýjum námsvísi fyrir apríl mánuð sem mun geyma fullt af skemmtilegum og áhugaverðum námskeiðum fyrir fólk á öllum aldri. Endilega fylgist með og takið þátt í gleðinni með okkur í apríl.

Deila þessum póst