Ráðherra undirritar samninga við Hraðið og Fab Lab Húsavík

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra heimsótti þekkingarsetrið á Húsavík í dag. Erindi heimsóknarinnar var að undirrita samninga um rekstur Hraðsins – miðstöðvar nýsköpunar og FabLab Húsavík. Um er að ræða samninga sem verið hafa í undirbúningi um nokkurt skeið og ná til ársins 2022 og hluti þeirra til 2023. Við þetta tækifæri var einnig fundað um framtíðarrekstur og stuðning ráðuneytisins við starfsemina á Hafnarstéttinni.

Undirritun samninga: Katrín, Óli, Áslaug Arna, Stefán Pétur

Við sama tækifæri komu fleiri góðir gestir til funda á staðnum, og hittu einnig ráðherra, þ.e. hluti þess hóps sem steig fyrstu sporin í þróunarsögu Marel á Húsavík, þeir Dr. Rögnvaldur Ólafsson, Tryggvi Finnsson og Hallgrímur Valdimarsson. Rögnvaldur, sem setið hefur í stjórn Þekkingarnetsins og Hraðsins frá upphafi, var sá sem fór fram með fyrstu hugmyndirnar að baki digital-væðingu matvælaiðnaðar í gegnum þróunarstarf sitt hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Þessar hugmyndir kom Rögnvaldur með í samstarf við Fiskiðjusamlag Húsavíkur þar sem margt öflugt heimafólk starfaði með þá Tryggva í sæti framkvæmdastjóra og Hallgrím í verkstjórn í fararbroddi. Í mjög einfaldri mynd urðu þetta fyrstu skrefin í aðdraganda stofnunar Marels, sem allir þekkja í dag.  Ráðherra, Áslaug Arna, hitti þá félaga í húsakynnum Hraðsins til spjalls um nýsköpun í framtíð og fortíð.  Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, tók á móti ráðherra ásamt forsvarsfólki Hraðsins og Þekkingarnetsins, en Norðurþing á beina aðild að Fab Lab Húsavík og mótar um þessar mundir frekara samstarf við Hraðið í kjölfar samningagerðarinnar við ráðuneytið.

Dr. Rögnvaldur Ólafsson og Áslaug Arna ráðherra á Hafnarstéttinni

Félagar frá þróunardögum Marel og Fiskiðjusamlags Húsavíkur.
Frá vinstri: Hallgrímur (fv. verk-/vinnslustjóri FH), Rögnvaldur (frá Raunvísindastofnun HÍ), Tryggvi (fyrrv. framkvæmdastjóri FH)

Ráðherra ræðir við forkólfa Vals ehf., sem eru að leggja lokahönd á framkvæmdir við húsnæði klasans.

Bjarni Aðalgeirsson húseigandi á Hafnarstétt 1-3 og Rögnvaldur Ólafsson

 

Deila þessum póst