Þekkingarnet Þingeyinga (ÞÞ) og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga (AÞ) vinna nú saman að verkefni sem ber heitið Tæknimennt sem byggðaaðgerð en það var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands. Verkefnið hefur það markmið að ýta undir tæknimennt og stafræna færni í grunnskólum á svæðinu enda alveg óhætt að segja að aukin færni til framtíðar sé mikilvægt byggðamál.
Nú hefur verið settur saman spennandi dótakassi, sem ber heitið Þingeyska snjallkistan. Þar kennir ýmissa grasa af kennslugögnum sem ætluð eru til að kenna og auka færni nemenda í forritun, kóðun, rafmagnsfræði, rýmisgreind, rökhugsun o.fl. sem allt byggir undir tækniþekkingu og færni barna, viðheldur eðlislægri forvitni þeirra og frumkvöðlahæfileikum.
Í kistunni er einnig er að finna vinylskera og hitapressu, þar sem hægt er að búa til vegglímmiða, stensla, fatamerkingar o.fl. sem hugmyndaflugið leyfir. Tæknin á bakvið notkunina á vínylskeranum er til að mynda sú sama og notuð er hjá trésmíðafyrirtækjum við fræsara.
Snjallkistan stendur öllum grunnskólum á starfssvæði ÞÞ og AÞ til boða og hefur verið kynnt skólunum, en hún mun ganga á milli skólanna samkvæmt samkomulagi þar um. Verkefnið er hugsað til 2 ára og miðar að því að skólarnir fái að kynnast þessum kennslugögnum, með von um að það örvi áhuga nemenda og kennara þar og að þeir eigi auðveldara með í framtíðinni að velja góð tæki til kennslu þegar kemur að tæknimenntun.
Eins og áður sagði styrkti Uppbyggingarsjóður Norðurlands verkefnið en skilyrði fyrir styrkveitingunni er að aflað yrði fjár á móti til að mynda frá fyrirtækjum á svæðinu til að kosta kaup á búnaði í kistuna. Um þessar mundir vinna starfsmenn ÞÞ og AÞ að öflun styrkja til að uppfylla þetta skilyrði.
Hér má sjá hvað snjallkistan inniheldur og hér geta tengiliðir skóla á starfssvæði Þekkingarnetsins og Atvinnuþróunarfélagsins pantað kistuna.