Samningur um Sjálfbærniverkefni Landsvirkjunar undirritaður

Frá framkvæmdum við stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar
Frá framkvæmdum við stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar

Þann 1. júlí síðastliðinn var undirritaður samningur á milli Landsvirkjunar og Þekkingarnets Þingeyinga um umsjón með Sjálfbærniverkefni Landsvirkjunar á Norðurlandi og fór undirritunin fram í höfðustöðvum Landsvirkjunar við Háaleitisbraut. Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnetsins undirritaði samninginn fyrir hönd stofnunarinnar.

Þekkingarnetið hafði á árunum 2008-2012 umsjón með Sjálfbærniverkefninu á Austurlandi og Sjálfbærniverkefninu á Norðurlandi. Umsjón með Sjálfbærniverkefninu á Austurlandi, sem er í eigu Landsvirkjunar, Landsnets og Alcoa, var flutt yfir til Austurbrúar áramótin 2012-2013 en Sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi lognaðist út af um það leiti sem ljóst var að ekki yrði af áformum Alcoa um uppbyggingu á Bakka.

Nú þegar ljóst er að af framkvæmdum verður á Bakka og uppbygging á Þeistareykjum er hafin hefur Landsvirkjun ákveðið að blása lífi í Norðurlandsverkefnið að nýju og verður fyritækið fyrst um sinn eini eignaraðili verkefnisins. Í vetur unnu Helena Eydís Ingólfsdóttir og Óli Halldórsson að verkefnisáætlun fyrir Landsvirkjun um hvernig best væri að haga fyrstu skrefum í að koma verkefninu aftur af stað og nýta þá vinnu sem þegar hefur farið fram vegna verkefnisins eins og mótun fyrstu tillagna að umhverfis-, efnahags- og samfélagsvísum til að fylgjast með frá því áður en framkvæmdir hefjast, á meðan á þeim stendur og eftir að þeim er lokið. Í kjölfar þess ákvað Landsvirkjun að ganga til samninga við Þekkingarnetið um umsjón með verkefninu. Helena Eydís mun verða verkefnisstjóri og halda utan um þá vinnu sem framundan er varðandi mótun vísa, mælingar á þeim og birtingu gagna. Aðrir starfsmenn Þekkingarnetsins munu einnig koma að vinnu við verkefnið eftir þörfum.

Þegar hefur verið myndaður stýrihópur vegna verkefnisins og er hann skipaður fulltrúa Landsvirkjunar, Jónu Bjarnadóttur, óháðum fulltrúa úr rannsóknageiranum, Hjalti Jóhannesson frá RHA, og fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu eru Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri í Þingeyjarsveit, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþingi, og Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri í Skútustaðahreppi. Fjölgi eignaraðilum verkefnisins munu fulltrúar þeirra bætast í stýrihópinn.

Við á Þekkingarnetinu hlökkum afskaplega mikið til að takast á við þær áskoranir sem felast í umsjón með Sjálfbærniverkefninu. Við höfum áður haft umsjón með bæði Norðurlands- og Austurlandsverkefnunum og þekkjum því nokkuð vel hvað umsjónin felur í sér í þessum gagnlegu og áhugaverðu verkefnum. Austurlandsverkefnið var mikið frumkvöðlastarf enda óþekkt að fyrirtæki ráðist í verkefni af þessu tagi. Það er algengara að sveitarfélög setji sér markmið um sjálfbærni og fylgi eftir með líkum hætti. Í Norðurlandsverkefninu munum við læra af Austurlandsverkefninu, sem er töluvert umfangsmeira enda fleiri eignaraðilar sem koma að því og meiri framkvæmdir í kringum það, en vonandi líka geta komið nýjungum inn í aðferðarfræði verkefnisins. Fyrstu drög að því eru í mótun. Lýðræði var mikið í báðum verkefnunum á meðan Norðurlandsverkefnið var enn í gangi. Það hefur ýmsa kosti en líka galla í för með sér. Til að mynda var gagnrýni á vísa í Austurlandsverkefninu ekki næg og eitt og annað sem fólk hafði áhyggjur af eða vildi láta mæla varð að vísi en þegar á reyndi voru það atriði sem var erfitt eða ómögulegt að nálgast gögn eða mælingar um. Úr þessu ætlum við að reyna að bæta í Norðurlandsverkefninu. Lýðræðið verður áfram til staðar en gagnrýnin og sían meiri þannig að við stöndum ekki uppi með vísa sem ekki er unnt að fylgjast með.

 

Deila þessum póst