Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, undirritaði í liðinni viku samstarfssamning við Þekkingarnet Þingeyinga til næstu þriggja ára. Undirritunin fór fram í ráðuneytinu að viðstöddum fulltrúa úr stjórn Þekkingarnetsins, Margréti Hólm Valsdóttur, og þeim Hellen Gunnarsdóttur og Þórarni Sólmundarsyni af skrifstofu vísinda og háskóla hjá ráðuneytinu. Samningur þessi er gerður í framhaldi af fyrri samningi sem rann út um liðin áramót og gildir árin 2014-2016.
Frá vinstri: Þórarinn Sólmundarson, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Hellen Gunnarsdóttir, Óli Halldórsson og Margrét Hólm Valsdóttir.
Meginmarkmið samningsins eru …
- að mæta fræðsluþörf íbúa og atvinnulífs með framboði og miðlun náms,
- að afla þekkingar og viðhalda, miðla henni og hagnýta á starfssvæðinu og
- að stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna, fræðastarfs, menningarstarfsemi og atvinnuþróunar á starfssvæðum Þekkingarnetanna.
Ánægjulegt er að ljúka þessu skrefi, en Þekkingarnetið hefur unnið að endurnýjun samningsins síðastliðnar vikur í góðu samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þekkingarnetið er fyrst í röð margra sambærilegra stofnana sem endurnýja munu samninga á þessu ári.
Samninginn má finna á heimasíðu Þekkingarnets Þingeyinga: https://www.hac.is/samningur-mrn-og-thth/