Nú hefur verið formlega undirritaður samningur á milli Þekkingarnets Þingeyinga og sveitarfélagsins Langanesbyggðar þar sem 30% af starfshlutfalli starfsmanns ÞÞ á rannsóknasviði á Þórshöfn verður varið til þróunarverkefna sem tengjast sveitarfélaginu. Um er að ræða verkefni eins og styrkumsóknir til verkefna og upplýsinga- og samráðsvinna af ýmsu tagi sem byggir á reynslu stofnunarinnar við rannsóknastörf í héraðinu og sérþekkingu sem byggst hefur upp í Menntasetrinu á Þórshöfn. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir mun sinna þessu hlutverki og starfa sem áður í Menntasetrinu á Þórshöfn. Mikil samvinna hefur verið á milli Þekkingarnetsins og Langanesbyggðar undanfarin ár og því var ákveðið að gera formlegt samkomulag af þessu tagi. Þetta styrkir einnig stöðu Þekkingarnetsins á staðnum en þar eru nú tveir starfsmenn.