Árið 2008 stóðu Landsvirkjun og Alcoa sameiginlega að því að koma á laggirnar Sjálfbærniverkefni á Norðurlandi sem átti í upphafi að vera systurverkefni Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi. Fyrirtækin boðuðu til stórra samráðsfunda meðal hagsmunaaðila á svæðinu og út úr þeim fundum komu tillögur að 108 vísum sem nota mátti til að mæla og fylgjast með breytingum á efnahag, umhverfi og samfélagi svæðisins í tengslum við byggingu álvers Alcoa og byggingu Þeistareykjavirkjunar.
Þegar Alcoa hætti við áform sín um álversbyggingu var verkefnið sett á ís þar til haustið 2014 þegar Landsvirkjun ákvað að fara aftur af stað með það en með örlítið breyttu sniði og nýjum samstarfsaðilum. Í dag standa Landsvirkjun, Landsnet, sveitarfélögin Norðurþing, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit og hagsmunasamtök í ferðaþjónustu að verkefninu auk þess sem í stýrihópi situr fulltrúi óháðra rannsóknaraðila. Að þessu sinni kemur sá fulltrúi frá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. Samið var við Þekkingarnet Þingeyinga um að fara með verkefnisstjórn á meðan verið væri að endurvekja verkefnið og móta vísa.
Undanfarin misseri hefur stýrihópur verkefnisins og starfsfólk Þekkingarnetsins unnið að mótun vísa til að vakta breytingar á efnahag, umhverfi og samfélagi svæðisins frá Jökulsá á Fjöllum til Vaðlaheiðar. Unnið var út frá þeim grunni sem til var frá árunum 2008-2009 og mati á umhverfisáhrifum vegna Þeistareykjavirkjunar og iðnaðaruppbyggingu á Bakka. Vísunum var fækkað úr 108 í 65 og mörgum þeirra var breytt þannig að þeir væru skýrari. Liður í því að móta vísana, fækka þeim og gera markmvissari var að boða til faglegs samráðs. Það samráð fór fram þann 23. febrúar síðastliðinn í Seiglu að Laugum í Reykjadal. Tilgangur samráðsins var að fá faglegt álit á mælikvörðunum og draga úr líkum á að verkefnið væri að missa af mikilvægum þáttum til að mæla. Leitað var til aðila eins og Byggðastofnunar, Náttúrustofu Norðausturlands, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Skemmst er frá því að segja að allir sem leitað var til tóku verkefninu vel þó nokkrir sæju sér ekki fært að taka þátt í faghópasamráðinu. Á samráðsfundinum var þátttakendum skipað í þrjá faghópa, efnahagshóp, umhverfishóp og samfélagshóp. Hóparnir fengu það verkefni að yfirfara vísana, bæta við vísum sem vantaði inní, fækka vísum sem voru óþarfir eða mældu sömu þætti og breyta vísum til að þeir væru skýrari. Vinna hópanna gekk afskaplega vel. Umræður voru gagnlegar og vísunum var fækkað úr 65 í 44.
Um þessar mundir vinnur stýrihópurinn að því að yfirfara vísana eftir faghópasamráðið og undirbúa næstu skref sem eru samráð við almenning, fyrirtæki og félagasamtök. Til þess samráðs verður boðað á næstu vikum.