Bókin Þistlar – sögur og munnmæli úr Þistilfirði er til sölu hjá Þekkingarnetinu en bókin var gefin út fyrir jólin 2010. Þar var sumarnemi starfandi hjá okkur við að safna saman sögum úr Þistilfirði og varð úr því lítið sagnakver. Það má kaupa í Þekkingarsetrinu á Húsavík, Menntasetrinu á Þórshöfn og í Gallerí Beitu á Þórshöfn. Skemmtileg bók í jólapakkann. Hér er ein lítil saga úr bókinni:
Ásmundur fótalausi
Tekið upp úr frásögn Jónasar Þorbergssonar úr Eimreiðinni 1917
Ásmundur Ásmundsson var fæddur að Bægisstöðum í Þistilfirði þann 26. apríl 1845. Þegar hann var fimm ára flutti hann ásamt foreldrum sínum út á Tjörnes og bjó þar til tvítugs. Þaðan fór hann í vinnumennsku í Kelduhverfi í þrjú ár en flutti síðan aftur til foreldra sinna til að sjá um þau í ellinni, fengu þau kot í Kelduhverfi til ábúðar.
Var Ásmundur eitt sinn sendur austur í Þistilfjörð í sendiferð fyrir föður sinn, talið er að þetta hafi verið í mars 1868. Hann lagði á Öxarfjarðarheiðina upp frá Sandfellshaga en þá var nokkuð liðið á daginn. Þegar hann hafði farið um fjórðung leiðarinnar yfir í Þistilfjörð fór að hvessa mikið og skall á með hríðarbyljum og hörkufrosti. Seinna sagði Ásmundur að þetta hefði verið sú grimmasta stórhríð sem hann hefði nokkru sinni lent í. Hraktist hann undan veðrinu um tíma en ákvað svo að snúa við því óráðlegt væri að halda áfram í svo vondu veðri. Hélt hann til baka en hafði einungis farið stuttan spöl þegar hann hrapaði fram af hengiflugi. Rankaði hann við sér nokkru síðar en ekki hafði hann hugmynd um hversu lengi hann hafði legið meðvitundarlaus og mundi óglöggt hvað hafði gerst. Var hann mjög kaldur og máttfarinn eftir fallið og fann fyrir miklum sársauka í vinstri öxlinni. En Ásmundur fór aftur af stað til að reyna að finna sér eitthvert skjól meðan veðrið gengi yfir en lítið var um afdrep þar sem fennt var yfir allt og lét Ásmundur þá fyrirberast undir steini en þar var lítið skjól fyrir veðri og vindum. Átti hann nú von á dauða sínum sökum kulda og verkjanna sem hann hafði í öxlinni, en undir steininum hírðist hann alla nóttina. Um morguninn fór að birta til og stytti hríðin upp, gaf það Ásmundi nýja von og hélt hann aftur af stað. Hélt hann í austur til að reyna að komast niður í Þistilfjörð en var á ferðinni allan daginn því hann bar mjög af leið. Var honum ferðalag þetta mjög erfitt því öxlin var úr lið og því fylgdi mikill sársauki þegar hann hreyfði sig. Þegar kvölda tók taldi hann sig vera nálægt byggð en sá þó hvergi mannabústað, kom hann að vörðu og þorði ekki að fara frá henni í náttmyrkrinu af ótta við að villast aftur af leið. Lét hann því fyrirberast þar um nóttina en veðrið var mun betra en nóttina áður en þó var mikið frost. Morguninn eftir reyndi hann að halda áfram í austur en komst ekki nema spöl því urð og grjót hamlaði för hans, hélt hann því aftur til baka og kom að vörðu þeirri sem hann hafði dvalið hjá kvöldið áður. Er birta tók sá hann að þetta var ekki varða heldur áburðarhlass og var hann staddur á túni einu og bær var þar skammt undan. Bær þessi var Sævarland og tók fólkið honum opnum örmum og veitti aðhlynningu eftir bestu getu. Vinstri hönd og báðir fætur hans voru beinkalnir, hægri hönd kól líka en ekki til stórskemmda. Lá hann í tíu daga með útlimina í ísvatni til að reyna að bjarga þeim en það tókst ekki, í mánuð lá hann á Sævarlandi með svo miklar kvalir að ekki var hægt að flytja hann en enginn læknir var á svæðinu. Að mánuði liðnum var hann fluttur heim til foreldra sinna í Kelduhverfi og kom þangað læknir frá Akureyri til að sinna honum. Tók læknirinn vinstri hendi af við miðjan framhandlegg og annan fótinn um ökkla en aðstoðarmaður læknis tók hinn fótinn af nokkru síðar. Ekki var hægt að setja handlegginn aftur í lið sökum bólgu og var Ásmundur úr lið við öxl það sem eftir var ævinnar og hafði hann engin not af vinstri hendinni af þessum sökum. Í rúmt ár var Ásmundur rúmfastur en eftir þann tíma fór hann að skríða um á hnjánum og þannig ferðaðist hann um í eitt og hálft ár. En síðasta misserið heyjaði hann vetrarfóður fyrir tólf hesta í blautri mýri. Lét hann smíða handa sér sívala tréstokka sem hann fóðraði að innan með ull og stakk síðan stúfunum þar ofan í. Stúfarnir voru mjög viðkvæmir og þoldu lítið álag og núning en við því var lítið að gera og blæddi því úr þeim á nánast hverjum degi í átján ár. Á þessum tíma greri aldrei alveg fyrir stúfana því aðgerðir þessa tíma voru mjög ófullkomnar og tókst því ekki að koma í veg fyrir síendurteknar sýkingar. Næstu ár fór Ásmundur að vinna fyrir sér bæði á sjó og landi og árið 1875 giftist hann Kristbjörgu Jónsdóttur. Fluttust þau tveimur árum seinna að Kúðá í Þistilfirði þar sem þau voru í vinnumennsku, þar leið þeim vel og komust í nokkur efni. Sumarið 1883 fluttu Ásmundur og Kristbjörg til Vesturheims þar sem þau bjuggu til æviloka. Fjórum árum eftir flutninginn til Vesturheims ágerðust sýkingarnar og bólgurnar í stúfunum og varð að taka neðan af þeim báðum á nýjan leik. Eftir þá aðgerð greri betur fyrir stúfana en áður og fékk Ásmundur nýja gervifætur sem reyndust mun betur. Ásmundur gekk hækjulaus en studdist þó við staf hvert sem hann fór.
Ásmundur og Kristbjörg áttu um tíma þó nokkuð af nautgripum og sauðfé en þau brugðu þó búi og fór Ásmundur þá að vinna fyrir þeim við hirðingu fjár og nautgripa hjá öðrum bændum. Kristbjörg dó 1910 fjörgömul eða 83 ára að aldri, Ásmundur hafið alltaf talið sitt mesta lán í lífinu að hafa átt hana að. Eftir dauða Kristbjargar dvaldi Ásmundur hjá íslenskum vesturförum og var ávallt aufúsugestur þar. Vann hann fyrir gistiplássi sínu með eldiviðarsögun og öðru sem til féll.
Saga Ásmundar á sér örugglega fáar líkar, þetta er saga af manni sem lenti í ótrúlegum raunum en lét það þó ekki buga kjark sinn eða þrautseigju. Lét hann fötlun sína ekki á sig fá og vann mörg verk sem alheilbrigðum mönnum hefðu þótt erfið. Lýkur hér sögu Ásmundar fótalausa.
Jónas Þorbergsson 1917. Ásmundar saga fótalausa. Eimreiðin, 3. tbl. 23. árg.