Skipulagsskrá

Þekkingarnet Þingeyinga er sjálfseignastofnun sem starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Við sameiningu Þekkingarseturs Þingeyinga og Fræðslumiðstöð Þingeyinga um mitt ár 2006 var sett ný skipulagsskrá á grunni beggja stofnananna sem sameinaðar voru. Þessi skipulagsskrá tók gildi í maí 2006. Þann 6. júlí 2010 var staðfest breyting á skipulagsskránni þar sem nafni stofnunarinnar var breytt úr „Þekkingarsetur Þingeyinga“ í „Þekkingarnet Þingeyinga“.

Skipulagsskrá  fyrir Þekkingarnet Þingeyinga 

1.gr.

Þekkingarnet Þingeyinga, kt. 670803-3330, er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn, stofnuð í samræmi við lög nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Heimili og varnarþing er í Þingeyjarsýslum. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og er ekki háð neinum öðrum lögaðilum.

2.gr.

Þekkingarnet Þingeyinga starfar á grunni símenntunarmiðstöðvarinnar Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga og háskólanáms- og rannsóknasetursins Þekkingarseturs Þingeyinga. Starfsemi sameinaðrar stofnunar undir nafni Þekkingarseturs Þingeyinga frá og með árinu 2006 tekur mið af markmiðum, hlutverki og skyldum beggja stofnananna.

Stofnfé Þekkingarnets Þingeyinga var við stofnun kr. 5.000.000.
Við sameiningu Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga og Þekkingarseturs Þingeyinga dags. 1. janúar 2006 er stofnfé kr. 7.487.575.   Þar af eru kr. 5.000.000 frá Þekkingarsetri Þingeyinga en kr. 2.487.575 frá Fræðslumiðstöð Þingeyinga.  Óskerðanlegt stofnfé er kr. 650.000. Eigi má fara með eigur stofnunarinnar eða ráðstafa þeim annan hátt en þann er samrýmist markmiðum hennar eða stuðlar að framgangi þeirra.

3.gr.

Símenntun
·að vera miðstöð símenntunar og fullorðinsfræðslu í Þingeyjarsýslum
·að efla menntunarmöguleika í Þingeyjarsýslum
·að bjóða upp á námskeið og námsleiðir tengd atvinnulífi og tómstundum
·að hafa milligöngu um fjarnámsframboð í héraðinu í samstarfi við skóla á viðkomandi skólastigum
·að veita námsráðgjöf og stuðning við nema og fólk sem hyggur á nám
·að vinna með fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum við mótun símenntunarstefnu þeirra og sérsniðinna námsleiða

Rannsóknir og þróun
·að vera miðstöð rannsóknastarfs og rannsakenda í Þingeyjarsýslum
·að hafa frumkvæði að rannsóknaverkefnum og rannsóknastarfi í héraðinu
·að þjóna vísinda- og fræðimönnum, einstaklingum, rannsóknanemum í framhaldsnámi, stofnunum og samtökum í Þingeyjarsýslum
·að vera leiðandi afl í að byggja upp samstarf þeirra aðila er stunda rannsóknir í héraðinu og stuðla að aukinni starfsemi rannsóknaraðila í héraðinu
·að taka virkan þátt í að móta öflugt nýsköpunarumhverfi í Þingeyjarsýslum í samstarfi við hagsmunaaðila í héraðinu
·að byggja upp samstarf og tengsl hagsmunaaðila innan íslensks nýsköpunarumhverfis

Háskólanám
·að starfrækja háskólanámssetur á Húsavík og eftir þörfum víðar í Þingeyjarsýslum með tilheyrandi aðstöðu og búnaði
·að vinna með háskólum að bættri þjónustu í formi fjarkennslu og staðbundins náms í Þingeyjarsýslum
·að þróa námsleiðir og/eða námskeið sem byggja á sérstöðu í náttúrufari og/eða menningu í Þingeyjarsýslum í samstarfi við háskóla

Samþætting þekkingarstarfs
·að efla byggð í Þingeyjarsýslum með styrkri símenntun, þjónustu á sviði háskólanáms og rannsóknastarfi
·að samþætta rannsóknir, fræðastarf, menntun og þróunarstarf og hagsmuni þeirra aðila sem koma að þessum málaflokkum

4.gr.

Í stjórn stofnunarinnar sitja 8 menn, tilnefndir til tveggja ára í senn. Stjórnarmenn skulu tilnefndir á ársfundi. Eftirtaldir aðilar tilnefna einn stjórnarmann hver:

·         Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga
·         Húsavíkurbær
·         Héraðsnefnd Þingeyinga
·         Framhaldsskólar í héraðinu (1 mann sameiginlega)
·         Háskóli Íslands
·         Háskólinn á Akureyri
·         Rannsóknastofnanir í Þingeyjarsýslum (1 mann sameiginlega)
·         Stéttarfélög í Þingeyjarsýslum

Falli stjórnarmaður úr stjórn af einhverjum ástæðum velur sá aðili sem hann tilnefndi annan í hans stað til stjórnarsetu frá og með næsta stjórnarfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum til tveggja ára í senn og kýs sér formann, varaformann og ritara. Stjórn er heimilt að tilnefna framkvæmdaráð, skipað 3 stjórnarmönnum sem starfar í umboði stjórnar með forstöðumanni.  Á fundum stjórnar ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum. Falli atkvæði á stjórnarfundum jafnt hefur atkvæði formanns tvöfalt vægi. Formanni stjórnar er skylt að boða fund ef a.m.k. tveir stjórnarmenn krefjast þess. Það sem gerist á fundum stjórnar skal bókað í gerðabók.

Stjórn Þekkingarnetsins fer með æðsta vald stofnunarinnar, mótar stefnu og starfstilhögun og vinnur að markmiðum stofnunarinnar skv. 3. grein. Stjórn ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum stofnunarinnar og setur henni reglur. Stjórnarfundir skulu boðaðir með a.m.k. 5 daga fyrirvara. Stjórnarmaður víkur af fundi sé fjallað um málefni er varða hann persónulega. Stjórnin ræður löggiltan endurskoðanda til að yfirfara reikninga stofnunarinnar. Stjórn hefur heimild til að skipa nefndir um sérstök verkefni.

5.gr.

Ársfund sjálfseignarstofnunarinnar skal halda í maímánuði ár hvert.  Formaður stjórnar boðar til ársfundar með dagskrá með minnst 7 daga fyrirvara og skal hann haldinn fyrir 1. júní ár hvert. Á ársfundi skal stjórn leggja fram skýrslu um starfsemi ársins, ársreikning fyrir undangengið fjárhagsár ásamt áætlun um starfsemi komandi árs. Á ársfundi skal lýsa tilnefningum í stjórn og leggja fram reikninga síðasta árs ásamt ársskýrslu stjórnar.

6.gr.

Stjórnin ræður forstöðumann til starfa og ákvarðar um starf hans og kjör. Forstöðumaður er talsmaður stofnunarinnar, annast daglegan rekstur, fer með stjórn fjármála stofnunarinnar  og annast reikningsskil í umboði stjórnar. Forstöðumaður ber ábyrgð gagnvart stjórn. Hann vinnur að framgangi stefnumála stofnunarinnar, öflun verkefna og fjár og því sem stjórnin ákvarðar hverju sinni. Forstöðumaður ræður starfsfólk í samráði við stjórn. Forstöðumaður situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.

7.gr.

Tekjur Þekkingarnets Þingeyinga, auk vaxta af stofnframlagi, eru eftirfarandi: Opinber framlög, tekjur fyrir þjónustu og aðstöðu, framlög aðila samkvæmt samningum, framlög fyrirtækja og samtaka, tekjur af ráðstefnu- og námskeiðahaldi og aðrar sértekjur.  Tekjum og eignum Þekkingarseturs Þingeyinga skal eingöngu varið í hverjum þeim tilgangi sem samrýmist markmiðum hennar sbr. 3. gr.

8.gr.

Ekki má veðsetja eignir stofnunarinnar nema að fengnu samþykki dómsmálaráðherra.  Ekki má binda eignir hennar nokkrum veðböndum eða skuldbindingum sem óviðkomandi eru tilgangi stofnunarinnar.

9.gr.

Reikningsár Þekkingarnets Þingeyinga er almanaksárið.  Forstöðumaður skal fyrir 1. desember ár hvert leggja rekstraráætlun næsta árs fyrir stjórn til afgreiðslu. Hann skal sjá um að endurskoðaður ársreikningur berist Ríkisendurskoðun með tilskildum hætti eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári.  Um reikningshald fer að öðru leyti eftir lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

10.gr.

Þessi skipulagsskrá kemur í stað skipulagsskrár Þekkingarseturs Þingeyinga sem staðfest var 11. mars 2004 sem og skipulagsskrár Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga sem staðfest var 7. janúar 2000 (með breytingu sem staðfest var 29. janúar 2004). Báðar fyrrgreindar skipulagsskrár falla úr gildi við staðfestingu þessarar skipulagsskrár. Skipulagsskrá þessarsi verður aðeins breytt með samþykki 2/3 hluta stjórnar enda sé fundur löglegur og boðaður með viku fyrirvara og tillaga um slíkt verið kynnt sérstaklega í fundarboði. Þekkingarnet Þingeyinga verður aðeins lagt niður með ákvörðun 2/3 hluta stjórnar. Verði stofnunin lögð niður skal eigum hennar ráðstafað í héraði með tilliti til markmiða hennar.

11.gr.

Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari og og breytingar hljóta staðfestingar dómsmálaráðherra. Skipulagsskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Húsavík 29. mars 2006

(Staðfest breyting af sýslumanninum á Sauðárkróki þann 6. júlí 2010.)