
Síðastliðinn mánudag fórum við af stað með Skrifstofuskólann, sem er 240 kest. námsleið. Kennt er þrjá seinniparta í viku og áætlað er að honum ljúki með útskrift seinni partinn í mars. Þátttakan er mjög góð, en alls eru 14 nemendur skráðir til leiks. Kennt verður í gegnum fjarfundarbúnað því einn nemandi er búsettur á Laugum og 3 á Þórshöfn.
Eins og oft áður eru konur í miklum meirihluta í nemendahópnum. En þó erum við með tvo karlmenn, sem er helmings aukning frá síðasta hóp. Í Skrifstofuskólanum eru kenndir eftirfarandi námsþættir; sjálfsstyrking, námstækni, þjónusta, færnimöppugerð, enska, bókhald og verslunarreikningur og tölvur.

Nú er fyrstu kennsluviku lokið og erum við mjög ánægð með nemendahópinn en þar ríkir góð stemming og greinilegt að allir eru klárir í átök vetrarins.