Nýkomin er út skýrsla Lilju B. Rögnvaldsdóttur um efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Um er að ræða greiningu á svæðisbundnum efnahagsáhrifum ferðaþjónustu og m.a. unnið með hliðsjón af alþjóðlegri forskrift sk. ferðaþjónustureikninga, sem Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur unnið á landsvísu með Hagstofu Íslands.
Vinna Lilju er fyrsta greining sinnar tegundar á áhrifum ferðaþjónustu á afmörkuðu svæði hérlendis og sýnir m.a. umfang atvinnugreinarinnar í Þingeyjarsýslum þar sem velta og þjónustukaup ferðaþjónustufyrirtækja innan svæðisins eru metin. Einnig koma fram tölur um fjölda ársverka í atvinnugreininni, launaveltu og stöðugildi sumar og vetur.
Lilja hefur unnið að verkefninu í þrjú ár. Upphaflega var til þess stofnað eftir frumkvæði Þekkingarnetsins og Lilju sjálfrar og endaði verkefnið sem samstarfsverkefni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og Þekkingarnets Þingeyinga.
Mikil ánægja ríkir hjá Þekkingarnetinu með þetta samstarf og standa vonir til þess að stofnunin geti áfram átt í samstarfi af þessu tagi með miðlægum fagstofunum við viðameiri rannsóknir sem tengjast starfssvæði stofnunarinnar. Þekkingarnetið óskar Lilju til hamingju með verkefnið og færir henni þakkir fyrir samstarfið.