Þekkingarnetið hefur um árabil átt í góðu samstarfi við sérfræðinga í hinum ýmsu fræðigreinum. Meðal þeirra eru sérfræðingar á sviði jarðhræringa. Í þrígang hafa í samstarfi við þá verið haldnar alþjóðlegar ráðstefnum um jarðskjálfta á Norðurlandi. Nú þegar er hafinn undirbúningur að fjórðu jarðskjálftaráðstefnunni sem haldin verður vorið 2022, þegar 150 ár verða liðin frá stóra Húsavíkurskjálftanum. Samstarfið snýr einnig að því að sérfræðingarnir hafa getað nýtt sér aðstöðu Þekkingarnetsins þegar þeir hafa verið við rannsóknir og mælingar á svæðinu og að sumarverkefni hafa verið unnin hjá Þekkingarnetinu í samstarfi við þá. Nú síðast í sumar var unnið að því að skoða grundun elstu húsanna á Húsavík.
Árið 2011 var líka unnið sumarverkefni í samstarfi við jarðfræðinga um sögulega jarðskjálfta á Norðurlandi. Verkefnið vann Ómar Þorgeirsson og voru leiðbeinendur hans Sigurjón Jónsson, Páll Einarsson og Sveinbjörn Rafnsson. Megin markmið með vinnunni við skýrsluna var annars vegar að gera ítarlega samantekt á stöðu á heimildum og upplýsingum um sögulega jarðskjálfta á Norðurlandi. Hins vegar að benda á mögulegar áður ónotaðar heimildir, greina frá því hvar þær væri að finna og hvað þær hefðu nýtt fram að færa um rannsóknarefnið. Horft var til tímabilsins frá landnámi til ársins 1910 og fjallað um hvern og einn þeirra.
Skýrslan hefur ekki verið aðgengileg á vef Þekkingarnetsins en mikið verið leitað eftir henni. Við höfum nú bætt úr því og nú ættu allir áhugasamir að geta sökkt sér í lestur um jarðskjálfta á Norðurlandi.