Sögur úr sveitinni

Síðastliðið sumar starfaði Margrét Hildur Egilsdóttir hjá Þekkingarneti Þingeyinga sem námsmaður í sumarstarfi.
Margrét er Mývetningur og hafði aðsetur á starfstöð Þekkingarnetsins á hreppskrifstofunni í Reykjahlíð.

Áður en Margrét kom til starfa hafði hún kynnt hugmynd sem hana langaði að vinna að sem sumarverkefni í samstarfi við Þekkingarnetið. Verkefni Margrétar sneri að skráningu á lífinu við Mývatn. Hvernig var daglegt líf við vatnið og hvernig breyttist það með árstíðunum? Hvernig voru samgöngur við vatnið? Skólahald beggja megin vatnsins, umbreyting sveitarinnar úr fámennum, jafnvel einangruðum stað í fjölsóttan ferðamannastað, þróun atvinnulífs, að vera ungur í Mývatnssveit, matarhefðir í sveitinni, að ógleymdum Kröflueldum urðu Margréti og viðmælendum hennar að umtalsefni.

Margrét tók viðtöl við þau Finnboga Stefánsson, Jón Árna Sigfússon, Sólveigu Illugadóttur og Þórunni Einarsdóttur þar sem þau segja frá lífi sínu við vatnið. Þau þrjú fyrst nefndu eru fædd og uppalin í sveitinni en Þórunn fluttist þangað á unglingsaldri. Úr viðtölunum vann Margrét fjóra hlaðvarpsþætti undir heitinu Sögur úr sveitinni.

Þórunn segir frá því að það hafi verið einhvers konar silungur á borðum í hverri máltið, siginn, reyktur, saltaður, nýr og það hafi verið viðbrigði fyrir hana.
Sólveig segir meðal annars frá skíðakennslu í Mývatnssveit, þar sem konurnar fóru fram á það að fá sérstaka kvennatíma því þeim þótti þær ekki fá nægar leiðbeiningar í tímum með körlunum og heimkomu í frí þegar hún stundaði nám í hjúkrun og hafði verið í Reykjavík um nokkurra mánaða skeið, en á nokkrum mánuðum var búið að rafvæða sveitina og viðbrigðin mikil þegar komið var upp á Mývatnsheiðina og horft yfir sveitina.
Jón Árni segir frá því þegar Mývetningar fara að baða sig í Grjótagjá og áformum fjölskyldunnar um að flytja til Brasilíu.
Finnbogi segir frá helstu samkomum í sveitinni, slægjufundum, þorrablótum, sumarmálasamkomum og tilurð félagsheimilisins Skjólbrekku sem samkomurnar voru haldnar, afrekum á skíðum og störfum sínum við vatnamælingar.

Hægt er að hlusta á viðtölin við viðmælendur Margrétar á spotify

Deila þessum póst