Í maí verða haldin spennandi námskeið víðsvegar á starfssvæði okkar. Í dag, þriðjudaginn 5. maí hefst myndlistarnámskeið í Mývatnssveit þar sem Trausti Ólafsson frá Húsavík mun kenna heimamönnum að meðhöndla og skapa með akrýlmálningu.
Dagana 12. – 14. maí mun Heiðdísi Austfjörð koma í heimsókn til Húsavíkur, Þórshafnar og í Mývatnssveit þar sem hún mun leiðbeina um fallega sumarförðun. Gráupplagt fyrir allar konur á starfssvæðinu að mæta og fá ráð til að gella sig upp fyrir sumarið.
Á Húsavík verða einnig þrjú önnur námskeið í maí. Námskeið í „Lean Startup“ er fyrir þá sem eru í nýsköpun og vilja koma vörum sínum á markað en það verður haldið 20. maí. Leiðbeinandi er Svavar H. Viðarsson en hann hefur áður mætt til okkar og haldið mjög vinsæl námskeið í Leiðtogafærni, þar sem færri komust að en vildu. Ásta Hermannsdóttir, næringafræðingur frá Háskóla Íslands, mun svo halda tvö mjög spennandi námskeið undir lok mánaðarins. Þetta eru námskeiðin „Næring ungbarna og mjólkandi mæðra“ sem haldið verður 21. maí, þar sem farið verður yfir nauðsynlega næringu barna á aldrinum 0-2 ára, ásamt næringarþörf mjólkandi mæðra og svo „Næring og heilbrigður lífstíll“, sem verður haldið 30. maí, þar sem þátttakaendur læra um heilbrigt mataræði og kenndar verða skemmtilegar æfingar sem henta hvar og hvenær sem er í sumarfríinu. Tilvalið að koma sér í gang í góðri næringu og hreyfingu fyrir sumarið.
Rúsínan í pylsuendanum er svo fyrirlestur/uppistand með Héðni Unnsteinssyni, stefnumótunarsérfræðingi hjá forsætisráðuneytinu, sem kallast „Hvernig líður þér? Lífsorðin 14 og geðrækt“. Héðinn er höfundur bókarinnar „Vertu úlfur – wargus esto“ sem hlotið hefur lofsamlegar móttökur gagnrýnenda og lesenda. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli á stöðu þeirra sem samfélagið álítur vera á jaðrinum. Í uppistandinu fer Héðinn yfir það sem hann lærði á mögnuðu ferðalagi sínu út á jaðarinn. „Ég hef lært að mataræði, svefn, hugleiðsla og hreyfing skipta miklu máli fyrir mig. Ef ég næ að vinna með það á réttan hátt er auðvelt fyrir mig að stjórna minni lífsorku og þá þarf ég ekki utanaðkomandi aðstoð. Ég hugleiði í tuttugu mínútur á hverjum morgni og næ þannig að hafa stjórn á hugsunum mínum. Ég þekki orðið hugsanaferlin og bý nú við það frelsi að geta valið við hverju ég bregst og hverju ekki. Þetta snýst líka um innri fullvissu og að vera ekki háður ytri viðurkenningu.“ Uppistandið verður í Nausti, húsi Björgunarsveitarinnar fimmtudaginn 28. maí kl. 20:00. Kostar aðeins 1.000 kr. og síðasti skráningardagur er föstudagurinn 22. maí.
Hér má lesa nánari námskeiðslýsingar og jafnframt er hægt að skrá sig á námskeiðin. Einnig er hægt að fá frekari upplýsingar og skrá sig á námskeiðin með því að hringja í síma 464-5100.
Við tökum á móti maímánuði með bros á vör og sól í hjarta þrátt fyrir frost og örlitla snjókomu.