Þekkingarnet Þingeyinga hefur á undanförnum árum ráðið til sín sumarstarfsmenn til að sinna hinum ýmsu rannsóknaverkefnum. Í ár voru þær Selmdís Þráinsdóttir og Þóra Bryndís Másdóttir ráðnar til að sinna rannsóknarstörfum og öðrum tilfallandi störfum við Þekkingarnetið í sumar. Að þessu sinni eru sumarstarfsmennirnir ekki ráðnir í sérstök rannsóknaverkefni eins og verið hefur heldur ganga þeir inn í verkefni sem starfsfólk Þekkingarnetsins er að vinna að svo sem þýðingar í tengslum við erlend samstarfsverkefni, samantekt á gögnum fyrir Árbók Þingeyinga og spyrja ferðamenn um dvöl sína á Húsavík.


Stærsta verkefnið verður þó þátttaka þeirra í búsetugæðarannsókn sem Þekkingarnetið mun sjálft standa fyrir í sumar. Rannsóknin er endurtekning á samskonar rannsóknum sem fóru fram árin 2008 og 2009. Þá voru spurningalistar sendir út í pósti með svarumslögum en að þessu sinni munu sumarstarfsmennirnir hringja í íbúa og óska eftir þátttöku þeirra. Þeir sem vilja taka þátt munu þurfa að gefa upp netfang til að fá könnunina senda með tölvpuósti og svara henni rafrænt í kjölfarið.
Í könnuninni er spurt um ýmislegt sem lítur að þjónustu, afþreyingu og samgöngum. Þá er einnig að finna spurningar tengdar atvinnuuppbyggingu í héraðinu. Spurningarnar eru samanburðarhæfar við eldri rannsóknir og því getum við að lokinni rannsókninni séð hvernig viðhorf íbúa hafa þróast á undanförnum 10 árum í þeim samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað á þeim tíma. Það er því afar mikilvægt að sem flestir þeirra sem hringt verður í taki þátt í könnuninni. Það er von okkar að íbúar taki símtölum frá þeim Selmdísi og Þóru vel og gefi sér tíma til að svara könnuninni, en þær munu hefja hringingar í dag og ekki hætta fyrr en þær hafa talað við að minnsta kosti 1.000 íbúa á svæðinu frá Vaðlaheiði til Bakkafjarðar.
Hér má sjá niðurstöður síðustu búsetugæðarannsóknar en þær verða notaðar til að bera saman við niðurstöður könnunarinnar sem nú er að hefjast.