Sumarstörf námsmanna

Síðastliðið sumar voru óvenju margir námsmenn við sumarstörf á Þekkingarneti Þingeyinga. Í febrúar þegar við höfðum þegar auglýst nokkrum sinnum eftir sumarstarfsfólki leit alls ekki út fyrir að margir námsmenn yrðu í sumarstörfum á vegum Þekkingarnetsins. Það var áður en við kynntumst hlutum eins og samkomubanni, farsóttarþreytu og að allir sem geta lyft snjalltæki lærðu á myndfundabúnað af einhverju tagi. Með átaki stjórnvalda í gegnum Vinnumálastofnun snerist staðan við og þekkingarnsetrin í Þingeyjarsýslum fylltust af ungu, áhugasömu og metnaðarfullu fólki.

Flestir voru námsmenn sumarsins starfsmenn Þekkingarnetsins en nokkrir voru starfsmenn samstarfsaðila Þekkingarnetsins eins og sveitarfélaga á svæðinu. Þeir störfuðu hjá okkur á tímabilinu frá miðjum maí og nú um þessari mundir er síðasti námsmaðurinn að skila lokaskýrslu.
Námsmennirnir stunda allir nám við háskóla utan einn sem er nemi í framhaldsskóla. Flestir voru þeir ráðnir til sumarstarfanna í gegnum átak Vinnumálastofnunar, þá er verkefnasjóður Þekkingarnetsins nýttur til ráðninga sumarstarfsmanna ásamt verkefnastyrkjum sem starfsmenn Þekkingarnetsins hafa aflað og koma námsmennirnir þá að vinnu verkefna Þekkingarnetsins.

Námsmennirnir komu úr afar ólíkum áttum, bæði skólum og fagsviðum. Það er sennilega óhætt að segja að sjaldan hafi námsmannahópurinn verið samsettur á jafn fjölbreyttan hátt. Yngsti námsmaðurinn enn á framhaldsskóla aldri á meðan þeir eldri hófu meistaranám í haust. Þá vorum við í fyrsta skipti með námsmenn úr tölvunarfræði og rafmagnstæknifræði.
Allt ýtti þetta okkur starfsfólkinu sem hefur umsjón með sumarverkefnunum hressilega út úr þægindaramma rannsókna sem fyrst og fremst eiga rætur í félagsvísindum og hefðbundnum skýrslum þar um þegar allt í einu fóru að verða til hlaðvörp og smáforrit í stað hefðbundinna skýrslna um sumarverkefnin. Staðalbúnaður við vinnuna voru ekki endilega tölvur og hin vel þekktu forrit word og excel, heldur hin ýmis upptökuforrit og sérútbúnir hljóðnemar.

Áður höfum við sagt frá nokkrum af þeim verkefnum sem námsmennirnir höfðu á sínum höndum í sumar. Þau hafa eins og oft áður vakið mikla og jákvæða athygli. Til að koma þeim enn betur til skila höfum við tekið saman stutt yfirlit um verkefnin og þá sem unnu að þeim. Aðallega af því að við erum aðeins montin af þessu flotta fólki sem við unnum með í sumar og af verkefnunum. En ekki síður af því að við erum þegar farin að hugsa um næsta sumar og frekari sigra með námsmönnum úr héraði. Við viljum að sem flestir námsmenn viti af þeim tækifærum sem til staðar eru hér heima í héraði til spennandi sumarstarfa á þeirra sviði, hvert sem það er.

Hér er yfirlitið sem myndband.

Deila þessum póst