Sumarverkefni: Gönguleiðir á og við Raufarhöfn

Á næstu vikum munum við birta stuttar fréttir um sumarverkefni sem unnin voru af námsmönnum á vegum Þekkingarnets Þingeyinga eða í samstarfið Þekkingarnetsins og sveitarfélaga á starfssvæði þess.

Rósa Þórsdóttir var sumarstarfsmaður Norðurþings og verkefni hennar sneri að því að skrá og kortleggja gönguleiðir á og við Raufarhöfn. Rósa notaði Wikiloc vefinn til að skrá leiðirnar en þar má sækja hnit fyrir gps tæki eða snjallúr, ásamt upplýsingum um leiðirnar og skoða myndir sem Rósa tók á ferðum sínum. Gönguleiðirnar eru undir notendanafni Þekkingarnetsins hac1.
Rósa Þórsdóttir í Heimskautsgerðinu á Raufarhöfn.

Rósa Þórsdóttir í Heimskautsgerðinu á Raufarhöfn.

Raufarhöfn er heimabær Rósu og þar hefur hún búið alla sína ævi. Staðurinn býr yfir fjölbreyttu dýralífi og er hann algjör paradís fyrir náttúrubörn eins og Rósu sem veit fátt skemmtilegra en að vera úti í náttúrunni.
Fegurð staðarins hefur verið heimamönnum skýr í mörg ár. Rósu langaði að vekja athygli á perlunum sem svæðið hefur upp á að bjóða. Skráðar voru fimm gönguleiðir sem endurspegla náttúrufegurð svæðisins ásamt því að draga fram sögulega atburði og fyrrum staðsetningu norður heimskautsbaugs.
Gönguleiðirnar sem skráðar voru eru:
• Heimskautsgerðið
• Höfðahringurinn
• Ólafsvatn
• Rifstangi
• Stríðsárin á Raufarhöfn

Þetta eru einungis fáar perlur af mörgum sem Melrakkaslétta hefur upp á að bjóða.

„Stríðsárin á Raufarhöfn“

Látum hér fylgja lýsingu á gönguleiðinni „Stríðsárin á Raufarhöfn“ sem er að finna á Wikiloc ásamt nokkrum myndum sem tilheyra leiðinni.

Þann 10. maí 1940 sigldu breskir hermenn inn höfnina og stigu fyrst á land á Raufarhöfn. Í byrjun þá bjuggu hermennirnir í tjöldum og stóðu vaktir í völdum húsum sem þeir hertóku. Síðar þá byggðu þeir bragga uppi á ásnum vestan við Raufarhöfn sem urðu þeirra höfuðstöðvar. Bresku hermennirnir voru í kringum 50 manns og voru braggarnir því býsna margir, eða á annan tug. Samskipti milli Bretanna og heimamanna voru góð. Sýndu hermennirnir engan yfirgang og áttu þeir nóg af nammi og öðru góðgæti sem þeir voru ósparir á. Árið 1943 þá kom bandaríski herinn og fóru Bretarnir fljótlega eftir komu þeirra. Það sem eftir stendur af veru hermannanna eru nokkrir húsgrunnar af bröggunum, litlar leifar af vegg af einum bragganum, Bretastangirnar, teikningar eftir þá í vitanum og vegur sem Bretarnir lögðu upp ásinn. Samskipti hermananna og heimamanna voru góð og sköpuðust náin kynni, meðal annars eitt hjónaband.

Þessi gönguleið fer yfir sögu hernámsins á Raufarhöfn. Gangan hefst við félagsheimilið Hnitbjörg og gengið er að gamla skólanum, sem var eitt af þeim húsum sem Bretarnir hertóku. Frá skólanum er haldið niður gamla veginn og að höfninni. Gengið er meðfram höfninni og í átt að gömlu götunni þar sem húsin Brunnvör og Friðmundarhús stóðu. Leiðinni er haldið áfram upp Framnesið þar sem Kvöldblik var. Þar er útsýni út hafið gott og varð þessi staðsetning því fyrir valinu hjá hermönnunum að standa vaktir. Farið er suður við Framnesið þar sem tjöld hermannanna stóðu og gengið í átt að Hjaltabakka. Þar er Kottjörnin sem lengi hefur verið leikvöllur barna á Raufarhöfn. Gangan heldur áfram inn í yngsta hluta bæjarins sem var skotæfingarsvæði hermannanna, vegna þess hversu langt svæðið stóð fyrir utan byggðina á þessum tíma. Leiðin liggur út úr þorpinu og upp Nónásinn. Þar standa Bretastangirnar ásamt leifum af bröggum hermannanna. Frá bröggunum er gengið veginn sem Bretarnir gerðu, niður ásinn. Útsýnið þar er gott yfir þorpið og hvergi betra að virða sögu hernámsins á Raufarhöfn fyrir sér. Leiðinni lýkur síðan á sama stað og hún byrjaði, við félagsheimilið Hnitbjörg.

Minjar um bragga breska hersins á Raufarhöfn.
Hér má sjá minjar um bragga breska hersins á Raufarhöfn.

Bretastangirnar á Raufarhöfn.
Bretastangirnar svokölluðu, fjarskiptamöstur sem breski herinn setti upp á Raufarhöfn.

Breskir hermenn á Raufarhöfn.
Breskir hermenn á Raufarhöfn.

Deila þessum póst