Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur verður morgungestur hjá Þekkingarneti Þingeyinga á föstudaginn. Þekkingarnetið mun standa fyrir vikulegum viðburðum á léttu nótunum í lifandi streymi á facebook síðu stofnunarinnar næsta mánuðinn og Svavar Knútur ætlar að verða fyrsti gestur okkar þar.
Hann mun fjalla örstutt um starf sitt og hlutverk alþýðutónlistarfólks í nútímasamfélaginu. Þá mun hann velta fyrir sér áhrifum almennrar tónlistarþátttöku á samfélagsleg verðmæti og félagsauð um leið og hann kynnir hljóðfærið Ukulele fyrir þátttakendum og syngur nokkur lög.
Þeir sem þekkja til Svavars Knúts vita að hann á það til að fara yfir víðan völl í spjalli sínu, þannig að best er að vera undirbúin fyrir ákveðna óvissuferð, en eins og alltaf er ferðalagið mikilvægara en áfangastaðurinn.
Streymið hefst kl. 10.00 á föstudagsmorgun og er öllum opið. Engin skráning er á viðburðinn.