Starfsmenn Þekkingarnetins funduðu í strandbænum Pescara á Ítalíu 29. maí síðastliðinn með samstarfsaðilum sínum í Erasmus+ verkefninu SUSTAIN IT – Sjálfbærni í ferðaþjónustu – nýsköpun í þjálfun starfsfólks. Þekkingarnetið eru verkefnisstjórar í þessu verkefni og samstarfsaðilar okkar eru 8 talsins og koma frá 6 löndum, Belgíu, Kýpur, Ítalíu, Írlandi, Spáni auk Nýheima á Höfn í Hornafirði. Þetta var í annað skiptið sem allur hópurinn fundar saman.
Verkefnið er fjármagnað af Erasmus+, samstarfsáætlun Evrópusambandsins og er samstarfsverkefni á sviði starfsmenntunar, KA2.
Markmið SUSTAIN IT verkefnisins er að styrkja starfsfólk og fagfólk í sjálfbærri ferðaþjónustu í Evrópu og jafnframt að hlúa að vexti og samkeppnishæfni greinarinnar
Í SUSTAIN IT munum við þróa hagnýtt og markvisst fræðsluefni sem verður bæði nýtt á hefðbundinn hátt í kennslu og aðgengilegt sem stafrænt náms- og kennsluefni á vefsíðu verkefnisins.
Á fundinum var farið yfir þá kortlagningu sem unnin hefur verið í vetur á fræðslu og sjálfbærni í ferðaþjónustu, í þeim löndum sem taka þátt í verkefninu. Unnið var að vefsíðu verkefnisins og kynningu þess. Innihald og uppbygging fræðsluefnisins var rætt og áframhald vinnunar skipulagt.
Þekkingarnet Þingeyinga er mjög stolt af því að fá tækifæri til að leiða svona stórt og áhugavert Evrópuverkefni. Það er okkar mat að með afrakstrinum sem verkefnið mun skila séum við að leggja okkar lóð á vogaskálarnar í því að efla sjálfbæra ferðaþjónustu, bæði á Íslandi og víða í Evrópu.
Frekari upplýsingar um SUSTAIN IT og Þekkingarnet Þingeyinga:
www.hac.is
ditta@hac.is