Þekkingarnetið hefur undanfarna mánuði hafið samstarf í nýjum alþjóðlegum verkefnum. Síðastliðið haust fór stofnunin inn í Nordplus-verkefnið „SPARK“, með danskri, finnskri og eistneskri stofnun. Núna í ársbyrjun bárust svo fregnir af því að styrkumsókn í samkeppnissjóð Norrænu ráðherranefndarinnar hefði fengist samþykkt. Þar er um að ræða verkefnið „Nordic and Russian NGOs building bridges”, sem er samstarfsverkefni Þekkingarnetsins, danskrar, eistneskrar og rússneskrar stofnunar. Í báðum tilvikum snúa verkefnin að uppbyggingu og þróun fræðsluúrræða fyrir aðila sem koma að menningarstarfi í dreifðum byggðum. Þessi tvö verkefni eru ekki mjög stór í sniðum, en skapa verðmæt tækifæri til þróunarstarfs og greiða fyrir ferðum og tengslamyndun á þeim sviðum sem Þekkingarnetið starfar. Samhliða þessum smærri verkefnum er svo unnið af fullum krafti að Erasmus-plus-verkefninu „CRISTAL“, sem er verulega stærra í sniðum. Það verkefni er samstarfsverkefni fjölmargra aðila og snýr að uppbyggingu tækni- og nýsköpunarfræðslu á öllum skólastigum.
Það er menntastofnun eins og Þekkingarnetinu afar mikilvægt að geta tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi.